Harriet Martineau
Harriet Martineau (12. júní 1802 – 27. júní 1876) var enskur rithöfundur sem skrifaði meðal annars um hagfræði, félagsfræði og guðfræði. Hún er stundum talin fyrsti kvenkyns félagsfræðingurinn. Hún kom úr vel stæðri fjölskyldu iðnaðarmanna í Norwich sem upprunalega voru franskir húgenottar og hóf ritferil sinn með greinaskrifum í tímarit únitara, Monthly Repository. Hún var systir enska heimspekingsins James Martineau og frænka athafnamannsins Peter Finch Martineau. Hún skrifaði röð bóka um kenningar Adam Smith, James Mill, Jeremy Bentham og David Ricardo. Fyrsta bókin hennar sem náði metsölu var Illustrations of Political Economy frá 1834 um kenningar Smith. Hún ferðaðist til Bandaríkjanna 1834-1836 þar sem hún studdi afnám þrælahalds. Tvö af þekktustu verkum sínum skrifaði hún meðan á Ameríkudvölinni stóð og rétt eftir að hún kom heim: Society in America (1837) og How to Observe Morals and Manners (1838). Árið 1845 reisti hún sér hús í Ambleside þar sem hún bjó megnið af sínum efri árum.