Sesselja Eldjárn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Sesselja Eldjárn f. 26. júlí 1893 á Tjörn í Svarfaðardal, d. 28. júlí 1987 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Petrína Hjörleifsdóttir og séra Kristján Eldjárn Þórarinsson á Tjörn. Sesselja var yngst 8 systkina, en 5 þeirra komust á fullorðinsár.

Störf[breyta | breyta frumkóða]

Sesselja Eldjárn dvaldist í heimahúsum til 1918. Ráðskona var hún á Dalvík 1919-1923. Starfaði næst sem matráðskona við Gagnfræðaskólann á Akureyri, síðar Menntaskólann 1924-1928. Stofnaði matsölu á Akureyri 1928 og rak hana með Ingibjörgu systur sinni til 1949, lengst af í Brekkugötu 9. [1] .[2]


Félagsmál[breyta | breyta frumkóða]

Sesselja stofnaði með fleirum kvenfélagið Tilraun í Svarfaðardal og var ein af stofnendum Ungmennafélags Svarfdæla og starfaði í báðum þessum félögum. Hún vann lengi á Akureyri að málefnum Slysavarnafélags Íslands, stofnaði þar ásamt fleirum kvennadeild 1935 og var formaður hennar frá upphafi og um langt árabil. Hún var heiðursfélagi Slysavarnafélags Íslands.

Um Sesselju[breyta | breyta frumkóða]

Um Sesselju var sagt í eftirmælum að hún væri í eðli sínu forystu- og athafnakona, kjarkmikil, úrræða góð og framtakssöm. Ekki rak hún matsölu sína í ábata- eða hagnaðarskyni og laut ekki lögmálum markaðarins. Hún seldi fæðið ódýrt og það sem hún setti upp fyrir það, var jafnan undir gangverði. Reiknuðu þær systur sér lágt kaup en á hinn bóginn ómælda vinnu. Sóttu þær laun sín í þá starfs- og lífsgleði, sem margt vel unnið starf veitir í sjálfu sér. Aldrei rukkaði Sesselja kostgangara sína um borgun en hún var heppin að því leyti að flestir þeirra voru skilamenn. Þó voru þar innanum fáeinir sem aldrei inntu neina greiðslu af hendi fyrir matinn, en ekki erfði Sesselja það við þá, því að þeir voru boðnir velkomnir til hennar á ný, ef þeir þurftu aftur á gjafafæði að halda. Svo sem vænta mátti reiddi Sesselja ekki digran sjóð frá ævistarfi sínu, því að eignalaus var hún eftir á, en stóð þó í skilum við alla og skuldaði engum neitt þegar upp var staðið.[3]


Örn Snorrason hagyrðingur og kennari á Akureyri orti um Sesselju þegar hún hafði skilið 100 kr. seðil eftir á glámbekk í Brekkugötunni:

Þú ert ekki þjófhrædd sál.
Þig er létt að véla.
Ég er blankur, mér er mál
mig langar að stela.

Sesselja giftist aldrei og á ekki afkomendur en Ingibjörg, systir hennar, sem var 9 árum eldri, var alltaf í heimili með henni og til aðstoðar svo lengi sem þær lifðu báðar. Þórarinn Kr. Eldjárn bóndi og kennari á Tjörn var bróðir þeirra systra.

Sesselja Eldjárn hlaut riddarakross fálkaorðunnar fyrir störf sín að slysavarnarmálum

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Erlingur Davíðsson 1972. Sesselja Eldjárn. Aldnir hafa orðið. 1. bindi, 9-41.
  2. Þórarinn Eldjárn 1987. Sesselja Eldjárn: minning. Norðurslóð 1987, 11 (7), bls. 3.
  3. Ólafur Sigurðsson. Minningargrein í Mbl. ágúst 1987