Fara í innihald

Hallur (ábóti á Munkaþverá)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hallur var íslenskur munkur sem var ábóti í Munkaþverárklaustri seint á 14. öld. Hann hafði verið munkur í Þingeyraklaustri, vígður ábóti í Munkaþverárklaustri þegar Þorgils ábóti var settur af 1385 og var til 1393 en þá vildi hann að sögn ekki vera lengur ábóti og fór aftur í Þingeyraklaustur.

Arftaki hans, sem vígður var 1394, hét einnig Hallur eða einhverju nafni sem byrjaði á Hall-. Hann hefur sennilega dáið í svarta dauða 1402 eða 1403 en engar heimildir eru um það. Hitt er víst að klaustrið fór mjög illa í plágunni, munkarnir hafa sennilega flestir dáið og klausturlífið var mjög lengi að ná sér á strik. Í rauninni er nær ekkert vitað um klaustrið næstu áratugi og þar hefur verið ábótalaust þótt einhverjir munkar væru í klaustrinu.

Það næsta sem er vitað er að í janúarlok árið 1429, nóttina eftir fyrsta laugardag í þorra, brann klaustrið ásamt klausturkirkjunni og breiddist eldurinn svo hratt út að fáu tókst að bjarga. Tveir munkar brunnu til bana en sá þriðji, sem Þorgils hét og var þá príor í klaustrinu, brenddist mjög illa, lá í rúminu fram til páska og náði sér aldrei aðfullu.

Þorgils var svo vígður ábóti sama ár „og leizt það mörgum eigi misráðið síðan“.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Munkaþverár-klaustur. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
  • „Munkaþverárklaustur. Sunnudagsblaðið, 10. apríl 1966“.