Fara í innihald

Hakoah Wien

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sport Club Hakoah Wien
Fullt nafn Sport Club Hakoah Wien
Stofnað 1909
Leikvöllur Prater Park (aflagður)
Stærð 25.000
Heimabúningur
Útibúningur

Hakoah Vín eða Hakoah Wien er austurrískt íþróttafélag gyðinga með aðsetur í Vínarborg. Félagið lét mikið til sín taka á knattspyrnusviðinu á millistríðsárunum, en var lagt niður eftir innlimun Austurríkis árið 1938. Það var endurvakið eftir síðari heimsstyrjöldina en knattspyrnudeild þess hefur ekki verið starfandi frá 1949.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Hakoah Wien var stofnað árið 1909 af hópi austurrískra Zíonista, þar á meðal tónskáldinu Fritz Löhner-Beda og tannlækninum Ignaz Herman Körner. Innblásturinn að stofnun félagsins var fenginn úr kenningum Max Nordau þess efnis að gyðingar ættu að leggja sérstakt kapp á líkamsæfingar (þýska: Muskeljudentum) til að verja sig fyrir ofsóknum og til að leggja grunn að stofnun sjálfstæðs gyðingaríkis. Nafn félagsins var fengið úr hebresku og merkir styrkur eða hreysti. Fyrstu greinarnar sem félagið lagði stund á voru frjálsar íþróttir, skylmingar, sund, fangbrögð, knattspyrna og hokkí.

Félagsmenn litu frá upphafi svo á að starfsvettvangur þess einskorðaðist ekki við Austurríki, heldur skyldu íþróttaflokkar þess ferðast um heiminn og reyna að fylkja sem flestum gyðingum á bak við málstað Zíonismans og vera sameiningartákn. Keppnisferðir Hakoah vöktu mikla athygli og naut félagið stuðnings gyðinga víða um lönd. Heimsóknir Hakoah gátu þó einnig vakið hörð viðbrögð gyðingahatara og var því mikil öryggisgæsla viðhöfð meðan á þeim stóð.

Meistaratitill[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1922 tók Hakoah á leigu glæsilegt íþróttasvæði í Vínarborg, Prater Park, sem hafði yfir að búa völlum fyrir ýmsar íþróttagreinar. Þá um vorið hafnaði Hakoah í öðru sæti austurrísku úrvalsdeildarinnar á aðeins sínu öðru keppnisári, fast á hæla Wiener Sportclub.

Þetta sama ár gekk ungverskur kantmaður, Béla Guttmann, til liðs við Hakoah frá MTK Búdapest. Hann átti eftir að verða einn kunnasti leikmaðurinn í sögu félagsins og síðar áhrifamikill knattspyrnuþjálfari víða um lönd. Með hann innanborðs varð Hakoah austurrískur meistari í fyrsta og eina sinn leiktíðina 1924-25 og vakti athygli að markvörður Hakoah skoraði úrslitamarkið í lokaleik liðsins. Hann hafði handleggsbrotnað í leiknum og neyðst til að skipta um stöðu við útileikmann og lauk leiknum með höndina í fatla. Þetta var jafnframt fyrsta árið sem atvinnumennska var heimiluð í austurrísku deildinni.

Tveimur árum fyrr, árið 1923, hafði Hakoah vakið mikla athygli fyrir að vinna 5:1 sigur á West Ham (sem raunar tefldi ekki fram sínu sterkasta liði) í keppnisferð um England var þetta í fyrsta sinn sem liði frá meginlandinu hafði tekist að sigra enskt félag á þeirra eigin heimavelli.

Bandaríkjaför[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1926 hélt Hakoah í mikla keppnisför til Bandaríkjanna og keppti fyrir troðfullum íþróttaleikvöngum. Vinsældir liðsins og sú staðreynd að leikmenn mættu miklu minni gyðingaandúð en þeir áttu að venjast á heimaslóðum gerðu það að verkum að hluti hópsins, Béla Guttmann þar með talinn, ákváðu að ílengjast í Bandaríkjunum. Um þessar mundir virtist atvinnuknattspyrna eiga bjarta framtíð vestan hafs og var stofnsett félagið New York Hakoah sem reyndist þó skammlíft.

Á fjórða áratugnum fluttust nokkrir lykilmenn Hakoah til Palestínu og komu þar að stofnun Hakoah Tel Aviv. Sú blóðtaka reyndist móðurfélaginu í Vínarborg ofviða og það hætti að geta barist um titla í fótboltanum heima fyrir. Hakoah Wien var þó áfram öflugt í öðrum íþróttagreinum auk þess sem það hafði ýmsu öðru félagslegu hlutverki að gegna, skipulagði t.d. hátíðir og kvikmyndasýningar.

Í kjölfar innlimunar Austurríkis í Hitlers-Þýskaland var starfsemi íþróttafélaga gyðinga bönnuð í Austurríki. Eigur félagsins voru gerðar upptækar og afhentar Nasistaflokknum. Hakoah var endurreist að stríði loknu en hefur aldrei aftur náð fyrri styrk og stærð.

Titlar[breyta | breyta frumkóða]

Deildarmeistarar (1)[breyta | breyta frumkóða]

  • 1924-25

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]