Fara í innihald

Hadsjí

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Pílagrímur á bæn í Stóru moskunni í Mekka

Hadsjí (sést stundum ritað með ensku umrituninni hajj, arabíska: حَجّ ḥaǧǧ) er pílagrímsferð múslima til Mekka og er ein af fimm stoðum íslams samkvæmt Sunní og einnig hinum tíu greinum trúarinnar samkvæmt Shía. Allir múslimar, sem heilsu hafa og hafa efni á, eiga að fara í slíka pílagrímsferð að minnsta kosti einu sinni á ævinni.

Yfirvöld í Sádi-Arabíu gefa út sérstaka vegabréfsáritun fyrir þá útlendinga, sem eru á leiðinni í þessa pílagrímsför, sem á sér stað á tíunda mánuði, Ḏū al-Ḥiǧǧah, hins íslamska árs. Aðgangur er algjörlega bannaður að allri borginni Mekka fyrir þá, sem ekki eru múslimar. Öll borgin er álitin heilög.

Pílagrímsförin

[breyta | breyta frumkóða]

Flestir þeirra, sem koma til Mekka í pílagrímsför, hafa safnað árum saman fyrir oft langt og strangt ferðalag. Þegar til Mekka kemur þurfa pílagrímarnir að vera í sérstöku andlegu hugarástandi, sem kallað er iḥrām. Til að ná þessu ástandi þarf að fylgja sérstökum reglum og klæðast sérstökum hvítum klæðnaði. Meðan á Hadsjí stendur mega pílagrímarnir ekki gera eftirfarandi:

  • Eiga kynmök
  • Raka sig eða klippa neglur
  • Nota ilmvatn og lyktarolíur
  • Drepa eða veiða neitt
  • Slást eða rífast
  • Konur mega ekki þekja andlit sitt, þó svo að þær geri það heimavið
  • Karlar mega ekki klæðast fötum með saumum

Helgihaldið í Mekka

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar til Mekka er komið, klæðast karlar pílagrímsklæðum, sem eru tveir stórir hvítir dúkar, sem sveipað er um sig, þannig að önnur öxl og handleggur eru ber. Konur bera fótsíð hvít klæði og höfuðdúk. Klæðin bera vitni um hreinleika og helgi og að allar manneskjur eru jafn háar fyrir Guði. Í Mekka fara pílagrímarnir í Stóru moskuna og ganga sjö sinnum rangsælis kringum Kaba. Síðan er hlaupið sjö sinnum milli hæðanna Marva og Safa, sem nú eru innan moskusvæðisins. Með því eru menn að minnast þess hvernig Hajar, kona Ibrihams, leitað eftir vatni fyrir son sinn í eyðimörkinni. Á níunda degi er farið til Arafat, sem er slétta 21 km austan við borgina, þar sem íhuguð er kveðjupredíkun Múhameðs og endurfundir Adams og Evu eftir brottreksturinn úr Paradís. Þennan dag standa pílagrímarnir stöðugt uppréttir frá hádegisbæninni fram að sólarlagi og lofa Guð. Á tíunda degi, id al-Adha, er steinsúla, sem er tákn fyrir Satan, grýtt til að minnast þess þegar hann freistaði Ibrahim (Abraham) til að fylgja ekki skipun Guðs. Ibrahim rak hann á braut með orðunum Allahu akbar ("Guð er stærri"). Þennan dag slátra pílagrímarnir kind eða lambi til þess að minnast fórnar Ibrahims og sem dæmi um eigin fórnarlund. Kjötið er gefið fátækum. Þeir þrír dagar, sem eftir eru, eru notaðir til að grýta Satan og til að umgángast.