Súnní

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Sunní)

Súnní er stærsta fylkingin innan íslam, en íslömsk trú klofnaði í tvo meginmeiði á sjöundu öld í kjölfar deilna um eftirmann Múhameðs spámanns. Annarsvegar eru súnní-múslímar, eða súnnítar, sem eru mikill meirihluti múslíma í heiminum, og hins vegar sjía-múslímar, eða sjítar, sem eru í minnihluta í heiminum. Sjítar eru þó í meirihluta í Írak og Íran.

Súnnítar trúa því að eftirmaður Múhameðs hafi ekki tekið við spámannshlutverkinu, Múhameð hafi verið síðasti spámaðurinn. En hann hafði einnig verið veraldlegur leiðtogi múslíma og einhver þurfti að taka við því hlutverki.

Alí, tengdasonur Múhameðs, var fjórði kalífi (sá sem stjórnar á jörðinni í umboði guðs) múslíma, en var myrtur árið 661. Þá tók helsti andstæðingur hans við kalífadómi, en átök þeirra voru undirrótin að klofningi íslams í súnní- og sjía-sið. Heitið á sjía-sið er dregið af „shi'at Ali“, eða „fylgismenn Alís“. Þeir telja Alí hafa verið þann eina sem hafi með réttu gegnt kalífadómi.

Hugmyndafræðilegur munur á súnní- og sjía-sið er í grundvallaratriðum sá að sjítar telja að Múhameð hafi átt sér andlega arftaka, þótt hann hafi verið síðasti spámaðurinn. Þessir arftakar eru nefndir imamar. Þeir hafa í krafti innblásturs meira innsæi í eðli guðdómsins en venjulegir menn hafa. Þess vegna geta þeir túlkað Kóraninn, helgirit múslíma, og áttað sig á duldum boðskap sem þar er að finna en venjulegir menn sjá ekki.

Samkvæmt súnní-sið, sem kenndur er við hefð, eða troðnar slóðir, er Kóraninn skiljanlegur öllum sem vilja lesa hann og leita lærdóms um hann. Ekkert í honum er hulið venjulegum mönnum. Þar er enginn dulinn boðskapur.

90% múslíma fylgja „súnna“ eða kennisetningum spámannsins og trúa á lögmæti kalífana (arftakanna), sem valdir voru til að leiða múslíma eftir dauða spámannsins.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]