Hómilíubók
Hómilíubók (eða Íslensk hómilíubók) er safn af fornum stólræðum og er elsta bók íslensk sem varðveist hefur. Hún hefur auk ræðna að geyma fræðslugreinar og bænir. Hómilíubók er talin rituð um aldamótin 1200 og margir telja hana þjóðargersemi íslenskrar tungu.
Enginn veit hver skráði Hómilíubókina eða hvar hún var niðurkomin á landinu í fimm aldir. Ritaðar heimildir segja þó frá því að hún hafi komst í hendur Svía á ofanverðri 17. öld þegar hún var seld úr landi fyrir 2 ríkisdali og 3 mörk. Og þar er hún nú, geymd í Konunglegu Bókhlöðunni í Stokkhólmi. Hún hefur enda stundum verið kölluð Stokkhólms-Hómilíubók.
Hómilíubók var fyrst gefin út í Lundi 1872 og þá var henni valið það heiti sem hefur fylgt henni síðar.
Margir höfundar hafa tjáð sig um tungumálið í Hómilíubók og þótt mikið til þess koma. Sigurbjörn Einarsson sagði í formála þegar hún kom út 1993:
- Frá bókinni má kenna ilminn frá gróanda íslenskrar frumkristni. Og um leið er sem maður fái að skyggnast inn í smiðjuna hjá þeim mönnum, sem fengu þjóðinni tygin til stórra afreka í bókmenntum.
Jón Helgason prófessor komst þannig að orði í Handritaspjalli um Hómilíubók.
- Óvíða flóa lindir íslenzk máls tærari en í þessari gömlu bók, og er sá íslenzkur rithöfundur sem ekki hefur þaullesið hana, litlu betur undir starf sitt búinn en sá prestur sem enn á ólesna fjallræðuna.