Fara í innihald

Gunnar Salómonsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gunnar Salómonsson (oft nefndur Gunnar Úrsus) (15. júlí 19073. janúar 1960) var íslenskur aflraunamaður og sýningarmaður aflrauna á Íslandi og víða erlendis.

Gunnar var fæddur að Laxárbakka í Miklaholtshreppi. Foreldrar hans voru Lárentsína Lárusdóttir Fjeldsted og Salómon Sigurðsson. Ársgamall missti Gunnar föður sinn og nokkru seinna varð móðir hans að láta hann frá sér í fóstur að Helgafelli í Helgafellssveit, og ólst hann upp með fósturforeldrum þar og síðar á Kóngsbakka í sömu sveit.

Innan við tvítugt fór Gunnar að heiman og stundaði ýmis störf til lands og sjávar. Hann mun hafa stundað nám einn vetur við Hvítárbakkaskóla. Gunnar var búsettur í Reykjavík á árunum eftir 1930. Árið 1934 kom til Reykjavíkur þýskur aflraunamaður Jung Atlas, sem hafði hér sýrningar á þrautum sínum og heillaðist Gunnar mjög af afrekum hans og mun hafa hlotið hvatningu frá honum að reyna við aflþrautir.

Árið 1936 fór Gunnar til Þýskalands í hópi íþróttamanna og kennara sem þá voru boðnir sem áhorfendur á ólympíuleika sem þá voru haldnir í Berlín. Eftir ólympíuleikina lá leið Gunnars til Kaupmannahafnar og þar réð hann sig til starfa hjá fjölleikaflokki og sýndi þrautir sínar með þeim í Kaupmannahöfn og víðar í Danmörku. Þar hófst hið eiginlega ævistarí Gunnars og að því hafði hann starfað í 23 ár er hann lést.

Gunnar sýndi mest í Danmörku, en einnig í Noregi og Þýskalandi fyrir stríðið og gat sér orðstír fyrir þrautir sínar. Sagt er að fáir eða engir gætu leikið allar þrautir hans eftir honum. Eitt sinn tók Gunnar þátt í keppni aflraunamanna í Kaupmannhöfn og fór með sigur af hólmi. Á stríðsárunum 19391945 tók hann að sýna sjálfstætt og ferðaðist um alla Danmörku og viðar og eftir stríðið sýndi hann mest í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Gunnar átti sjö börn. Síðasta eiginkona hans var Elín Þórarinsdóttir. Ævisaga Elínar nefnist: Allt önnur Ella en hana skráði Ingólfur Margeirsson.

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.