Gula húsið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gula húsið er smásagnasafn eftir Gyrði Elíasson sem kom út árið 2000. Fyrir bókina hlaut Gyrðir Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness og Íslensku bókmenntaverðlaunin.

Brot úr verkinu[breyta | breyta frumkóða]

KOMIÐ FRAM Á KVÖLD og ég var að fara að stíga út úr ýtunni þegar mér varð litið framfyrir hana, í ljósgeislann sem beindist að steininum. Ég sá koma gangandi út úr steininum hóp af dökkklæddu fólki í einfaldri röð, út úr mosagrónum og hrjúfum fletinum. Þetta var mjög lágvaxið fólk, og börnin voru hreinustu agnir. Fullorðin kona hélt á ungabarni sem var vafið í sjöl og á undan gekk þungbúinn maður með gráan hatt.
Þetta kom illa við mig. Ég tel mig raunsæjan mann, og hef aldrei viljað hlusta á sögur um fólk sem býr í steinum. Það eina sem ég get viðurkennt af svoleiðis er það sem íslenska konan sagði á síðustu öld þegar hún kom til Edinborgar og hafði aldrei séð almennileg hús áður: "Hér býr fólkið í steinum." Ég hafði hlegið að öllum sögum um fólk í þessum gráa steini hér og var vanur að gefa allt í botn á ýtunni fast við hann án þess að finna til minnsta samviskubits. Félagar mínir í vinnuflokknum voru sama sinnis. Allir nema einn, aldraður maður sem sagði að sig hefði dreymt eitt og annað og sagði mér að vara mig. Ég hló og sagði honum að vara sig sjálfur. Hann sagðist ætla að gera það.
Og þarna sá ég fólkið koma út úr steininum, og fann um leið að það var af öðrum heimi en ég. Ekki spyrja hvernig ég fann það. Því gæti ég ekki svarað. En ég fann það. Ég var orðinn einn eftir á ýtunni. Vinnufélagarnir farnir heim, bara stórkarlaleg förin eftir vörubílana, og gröfurnar hvíldu hrottalega kjaftana.
Það drundi hátt í ýtunni, en fólkið virtist hvorki sjá né heyra. Það gekk álútt og hélt röðinni, mjakaðist yfir klapparholtið. Ekki var mjög langt niður að hamrabrúninni, og þar fyrir neðan svarraði sjórinn þetta kvöld í haustbyrjun. Ég hafði ætlað að ryðja steininum burt morguninn eftir.
Gula húsið.