Guðrún Pétursdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðrún Pétursdóttir (f. 14. desember 1950) er íslenskur lífeðlisfræðingur, dósent í fósturfræði og lífeðlisfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og þverfaglegar rannsóknir við Háskóla Íslands.[1]

Guðrún fæddist í Frakklandi og voru foreldrar hennar hjónin Marta Ólafsdóttir Thors (1918-1998) fulltrúi á tónlistardeild RÚV og Pétur Benediktsson (1906-1969) bankastjóri, sendiherra og alþingismaður. Maki Guðrúnar var Ólafur Hannibalsson (1935-2015) blaðamaður og eiga þau tvær dætur.[2]

Nám[breyta | breyta frumkóða]

Guðrún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1970, BA-prófi í sálarfræði frá Háskóla Íslands árið 1975, MS-prófi í lífeðlisfræði frá Oxfordháskóla árið 1977 og doktorsprófi í taugalíffræði frá Óslóarháskóla árið 1992. Veturinn 1970-1971 stundaði Guðrún tónlistar- og leiklistarnám við Konservatotium für Musik und Dramatische Kunst í Vínarborg.[2]

Starfsferill[breyta | breyta frumkóða]

Guðrún var kennari og rannsóknarmaður á Rannsóknarstofu HÍ í lífeðlisfræði árið 1977-1982, rannsóknarmaður í taugalíffræði á Lífeðlisfræðideild Óslóarháskóla árið 1982-1987, lektor við hjúkrunarfræðideild HÍ 1987-1988 og dósent í frumulíffræði og fósturfræði frá 1988. Guðrún hefur verið forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða við HÍ frá 1995 (stofnunin hét upphaflega Sjávarútvegsstofnun HÍ).

Guðrún hefur gegnt ýmsum öðrum störfum í gegnum tíðina, t.d. var hún stjórnarformaður Íslensku óperunnar frá 1999-2000, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá 1998-2002 og í dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna frá 1996-1997.[2] Hún var formaður stjórnlaganefndar, sem undirbjó endurskoðun stjórnarskrár Íslands 2010-2011 og hefur verið stjórnarformaður Styrktarsjóðs hjartveikra barna, Hollvina Grensásdeildar, og Vinafélags Gljúfrasteins.[1] Guðrún var framarlega í flokki þeirra sem mótmæltu byggingu Ráðhússins í Reykjavík á sínum tíma.

Forsetaframboð[breyta | breyta frumkóða]

Í byrjun febrúar árið 1996 tilkynnti Guðrún framboð sitt til embættis forseta Íslands í forsetakosningunum í júní sama ár.[3] Guðrún náði fljótt ágætu flugi í skoðanakönnunum og í könnun sem birtist í DV í byrjun mars mæltist hún með mest fylgi þeirra sem nefnd voru.[4] Eftir því sem frambjóðendum fjölgaði þyngdist róðurinn hjá framboði Guðrúnar og svo fór að hún dró framboð sitt til baka þegar aðeins tíu dagar voru til kosninga.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Visindavefur.is, „Hvað hefur vísindamaðurinn Guðrún Pétursdóttir rannsakað?“ (skoðað 20. febrúar 2020)
  2. 2,0 2,1 2,2 Pétur Ástvaldsson, Samtíðarmenn A-Í bls. 277-278, (Reykjavík, 2003)
  3. „Guðrún Pétursdóttir í kjöri til forsetaembættis“, Morgunblaðið, 4. febrúar 1996 (skoðað 20. febrúar 2020)
  4. „Langflestir vilja Guðrúnu Pétursdóttur til Bessastaða“, Dagblaðið Vísir, 4. mars 1996 (skoðað 20. febrúar 2020)