Fara í innihald

Guðrún Ágústsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðrún Ágústsdóttir (fædd 1. janúar 1947) er fyrrverandi borgarfulltrúi og forseti borgarstjórnar Reykjavíkur.

Guðrún fæddist í Reykjavík og foreldrar hennar voru Ragnheiður Eide Bjarnason (1924-2015) húsmóðir og Ágúst Bjarnason (1918-1994) skrifstofustjóri. Föðurafi Guðrúnar var Bjarni Jónsson vígslubiskup.

Guðrún lauk gagnfræðaprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1964 og stundaði enskunám í London frá 1965-1966 og við Edinborgarháskóla árið 1976. Hún var við nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð frá 1979-1982. Guðrún starfaði hjá Landsbanka Íslands 1965-1966, var flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands 1966 og 1967, skrifstofumaður hjá Sjóvá 1968-1970, fulltrúi hjá Hjúkrunarskóla Íslands 1971-1975 og 1978-1987. Hún var framkvæmdastjóri við undirbúning Norræns kvennaþings í Ósló frá 1986-1987 og í framkvæmdastjórn þingsins á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Hún var aðstoðarmaður Svavars Gestssonar menntamálaráðherra frá 1988-1991, starfsmaður Þjóðviljans 1991 og fræðslu- og kynningarfulltrúi hjá Kvennaathvarfinu 1991-1994.

Hún var borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins í Reykjavík frá 1982-1990 og borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans frá 1994-2002.

Eignmaður Guðrúnar var Svavar Gestsson (1944-2021) fyrrverandi ráðherra, alþingismaður og sendiherra. Fyrri maður hennar var Kristján Árnason prófessor við Háskóla Íslands og eiga þau þrjú börn.

  • Olga Guðrún Árnadóttir (ritstj.) (2011). Á rauðum sokkum, baráttukonur segja frá. Háskólaútgáfan og RIKK. ISBN 9789979549260.
  • Pétur Ástvaldsson, Samtíðarmenn A-Í bls. 268-269, (Reykjavík, 2003)