Kvennaathvarfið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Samtök um kvennaathvarf voru stofnuð í Reykjavík árið 1982. Samtökin reka Kvennaathvarf í Reykjavík og á Akureyri. Athvörfin eru opin öllum konum sem ekki geta búið heima hjá sér vegna andlegs og eða líkamlegs ofbeldis. Samtök um kvennaathvarf reka einnig ráðgjafaþjónustu og bjóða upp á ókeypis ráðgjöf og viðtöl.[1]

Hugmyndin að stofnun Kvennaathvarfs í Reykjavík kom fyrst fram í hópi innan Kvennaframboðsins í Reykjavík sem bauð fram í borgarstjórnarkosningunum árið 1982. Markmið var að koma á laggirnir athvarfi fyrir konur sem ekki geta dvalist á eigin heimili vegna ofbeldis. Hópurinn komst fljótt að þeirri niðurstöðu að ekki væri æskilegt að tengja stofnun Kvennathvarfs sérstaklega við kosningabaráttuna því málefni kvennathvarfs höfðuðu til fjölbreytts hóps kvenna óháð stjórnmálaskoðunum og því var fljótt ákveðið að stofnun Kvennathvarfs yrði þverpólitísk aðgerð. Í upphafi var lögð áhersla á að ofbeldi gegn konum af hálfu maka þeirra væri skoðað í samhengi við veika stöðu kvenna og undirokun þeirra hvarvetna í samfélaginu.[2]

6. desember árið 1982 var Kvennaathvarfið opnað. Í upphafi voru Samtök um kvennaathvarf grasrótarsamtök en árið 1995 voru mynduð formleg samtök um starfsemi Kvennaathvarfsins og árið 2010 var stofnuð sjálfseignarstofnun um húsnæði athvarfsins. Í Kvennaathvarfinu starfa konur með fjölbreyttan bakgrunn en einnig lögfræðingar og félagsráðgjafar.[1]

Árið 2020 var opnað Kvennaathvarf á Akureyri og er Kvennathvarfið nú til húsa bæði í Reykjavík og á Akureyri.[3]

Tölulegar upplýsingar[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2020 dvöldu samtals 248 íbúar, 138 konur og 110 börn í Kvennaathvarfinu í Reykjavík um lengri eða skemmri tíma og dvöldu þau í athvarfinu allt frá einum degi upp í 174 daga. Að meðaltali dvöldu konur í 30 daga í athvarfinu en börn að meðaltali í 34 daga. 12 konur og 10 börn dvöldu að meðaltali í húsinu á degi hverjum. Einnig komu 312 konur í 620 viðtöl í athvarfinu án þess að til dvalar kæmi. Meirihluti notenda athvarfsins voru íslenskar konur eða 64%.[4]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Kvennaathvarf.is, „Um samtökin“ (skoðað 20. janúar 2021)
  2. Gunnhildur Sigurhansdóttir, „Skjól og skjöldur - Stofnun Samtaka um kvennaathvarf og Kvennaathvarfs í Reykjavík 1982“, Sagnir, 1. tbl. 28. árgangur 2008 (skoðað 20. janúar 2021)
  3. Mbl.is, „Kvennaathvarf opnar á Akureyri“ (skoðað 20. janúar 2021)
  4. Kvennaathvarfid.is, „Töluleg samantekt frá starfsemi athvarfsins á árinu 2020“ (skoðað 20. janúar 2021)