Fara í innihald

Guðmundur Elíasson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðmundur Elíasson (f. 13. janúar 1925 - d. 12. júní 1998) var íslenskur myndhöggvari. Hann er þekktastur fyrir brjóstmyndir af Jóni Sigurðssyni og Jóhannesi Kjarval.[1]

Guðmundur Elíasson

Ætt[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Guðmundar voru Ingibjörg Guðmundsdóttir, ættuð frá Tungu í Gaulverjabæjarhreppi og Elías Hjörleifsson, múrarameistari, ættaður úr Árnessýslu.

Nám og störf[breyta | breyta frumkóða]

Á unglingsárum sínum naut Guðmundur tilsagnar Ásmundar Sveinssonar, myndhöggvara. Guðmundur stundaði síðan nám vi Myndlista- og handíðaskóla Íslanda árin 1939 - 1944. Um tvítugsaldur hélt Guðmundur til náms erlendis, í fyrstu við Central School of Arts and Crafts í London veturinn 1945 – 1946 og við Listaháskólann í Charlottenborg 1946 – 1947, Myndlista - og handíðaskóla Íslands 1947 - 1948. Meginhluta listmenntunar sinnar hlaut Guðmundur hins vegar við Académie de la Grande Chaumiére í París árin 1948 til 1953. Þar var kennari hans myndhöggvarinn Ossip Zadkine.

Listferill Guðmundar hófst eftir námið í Danmörku og samhliða náminu í París þar sem hann tók þátt í samsýningu fimm íslenskra listamanna árið 1950. Í íslenskum dagblöðum er sagt frá þessari sýningu og nefnt að þetta sé í fyrsta sinn sem samsýning sé haldin á verkum íslenskra listamanna í París.  Listamönnunum var boðið að taka þátt í sýningu í maímánuði á vegum listamannasambands, sem sjaldan býður erlendum listamönnum að sýna hjá sér. Eru þessir Íslendingar til dæmis fyrstu Norðurlandabúar sem fá slíkt boð. Sýning Íslendinganna fimm er í litlum sýningarskála, “La Galerie Saint Placide” við samnefnda götu.  Listamennirninr eru Hörður Ágústsson, Hjörleifur Sigurðsson, Valtýr Pétursson, Guðmundur Elíasson og Gerður Helgadóttir. Alls voru verk á sýningunni rúmlega 30.  Umsagnir um sýninguna birtust í nokkrum dagblöðum í París.

Í París: Benedikt Gunnarsson, Guðmundur, óþekktur, Thor Vilhjálmsson.
Verkið Uppstilling, á sýningu í París 1950. Ljósmynd: Guðmundur Elíasson.

Thor Vilhjálmsson rithöfundur, skrifar grein um sýninguna í Þjóðviljann 4. maí 1950.[2]

Eftir að heim kom, tók Guðmundur þátt í útisýningunum á Skólavörðuholti 1969 og 1970, í Norræna húsinu, safni Sigurjóns Ólafssonar, Casa Nova og víðar.[3]

Guðmundur lést í Reykjavík 12. júní 1998.[1]

Á næsta ári (2025) verða liðin 100 ár frá fæðingu Guðmundar. Af því tilefni verður gefin út bók um Guðmund og verk hans á vegum Hins íslenska bókmenntafélags. Aðstandendur bókarinnar eru Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur, Ólöf Helga Guðmundsdóttir og Hjalti Harðarson.

Nokkur verka Guðmundar[breyta | breyta frumkóða]

- 1981 var afhjúpuð lágmynd til minningar um Mugg á Bíldudal.[4]

- 1990 var afhjúpuð höggmynd af Jóhannesi skáld úr Kötlum á Búðardal[5]

- Jón Björnsson frá Veðramóti (á Sauðárkróki)

- Jóhannes Geir Jónsson, listmálari (á Sauðárkróki)

- Þorsteinn Björnsson (á Hellu)

- Björn Th. Björnsson, listfræðingur

- Thor Vilhjálmsson (höggmyndir, teikningar og málverk)

- Fjöldi teikninga og málverka

- Verk eftir Guðmund eru í eigu Listasafns Íslands.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Guðmundur Elíasson. Morgunblaðið. 26.06.1998
  2. „Íslensk listsýning í París“. Þjóðviljinn.
  3. Útisýningarnar á Skólavörðuholti 1967-1972, bls. 114, 115, 143, 175. Minningarsjóður um Ragnar Kjartansson. 2017.
  4. Minnismerki um Mugg. Morgunblaðið. 9.9.1981
  5. Heimsókn í Dalabyggð. Breiðfirðingur. 1.4.2016