Fara í innihald

Guðmundur (ábóti á Þingeyrum)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðmundur ábóti (d. 1339) var íslenskur munkur sem var ábóti í Þingeyraklaustri frá því að hann var vígður 1310 þar til hann lagði niður embætti árið 1338. Hann var bæði fræðimaður og fjáraflamaður fyrir klaustrið og kemur víða við heimildir. Þó er ætt hans ekki þekkt og ekki einu sinni föðurnafn hans en hann er sagður hafa verið systursonur Höskuldar, sem var ábóti á undan honum.

Guðmundur lagði kapp á að mennta sjálfan sig og munka sína og fékk meðal annars mikinn fræðimann, Lárentíus Kálfsson prest og síðar biskup, til að kenna við klaustrið. Árið 1316 vígði Guðmundur ábóti svo Lárentíus til munklífis við klaustrið og með honum tvo aðra fræðimenn, Árna son Lárentíusar, sem sagður var ritari mikill og klerkur góður en gerðist drykkjumaður, og Berg Sokkason, sem seinna varð ábóti á Munkaþverá. Á meðal lærisveina Lárentíusar í klaustrinu var Egill Eyjólfsson, síðar Hólabiskup. Séra Hafliði Steinsson, áður prestur á Breiðabólstað, var próventumaður í klaustrinu og ráðsmaður um tíma. Sonur hans, Einar sagnaritari, skrifaði Lárentíusar sögu biskups.

Guðmundur ábóti deildi við Auðun rauða Hólabiskup vegna fjármála Þingeyraklausturs en forveri Auðunar, Jörundur biskup, hafði tekið hluta biskupstíunda af klaustrinu en látið það hafa jörðina Hjaltabakka í staðinn. Auðunn tók jörðina aftur af klaustrinu en lét ekkert í staðinn.

Þetta og fleira sætti Guðmundur sig ekki við og fór Guðmundur til Noregs 1318 til að vinna málstað klaustursins fylgi erkibiskups og var þar í tvo vetur. Á meðan var Björn Þorsteinsson príor á Þingeyrum. Samkvæmt því sem Jón Espólín segir í Árbókum sínum fór Auðun rauði vestur til Þingeyra haustið 1318 en var ekki hleypt inn og söfnuðu munkarnir liði til að verja klaustrið ef á þyrfti að halda. Ekki kom þó til þess og biskup hélt til Noregs og dó þar 1322 en Lárentíus Kálfsson varð Hólabiskup og var vígður 1324. Ekki lauk þó málarekstrinum við það og náðust ekki sættir fyrr en 1329.

Guðmundur gaf frá sér ábótadæmið 1338 og gerðist þá munkur í Munkaþverárklaustri. Þar dó hann ári síðar og var lík hans flutt til Þingeyra og jarðsett þar. „Urðu margir merkiligir atburðir í líkfylgju hans, ok hyggja menn hann góðan mann fyrir guði. Lét hann upp smíða framkirkju á Þingeyrum, ok fekk hann til skrúða, bækr ok klukkur ok kenndi mörgum klerkum þeim, sem síðar urðu prestar, ok var inn mesti nytsemdarmaðr,“ segir í annálum.

Ábótalaust virðist hafa verið í klaustrinu 1338-1340 en þá tók Björn Þorsteinsson, sem áður hafði leyst Guðmund af, við embættinu. Hann hafði verið ábóti á Munkaþverá frá 1334.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Þingeyraklaustur". Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 8. árgangur, 1887“.
  • „„Þingeyraklaustur". Sunnudagsblaðið, 20. mars 1966“.