Bergur Sokkason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bergur Sokkason (d. 1350) var íslenskur munkur, ábóti og fræðimaður. Hann var árið 1316 munkur í Þingeyraklaustri en fluttist þaðan í Munkaþverárklaustur. Þar var hann príor árið 1322 en ábóti árin 1325 – 1334 og aftur 1345 – 1350. Hann er talinn hafa sagt af sér ábótadæminu 1334 vegna lítillætis, þótt síðar þyrfti hann að taka við því öðru sinni.

Laurentius biskup hafði kennt Bergi: „Varð hann hinn fremsti klerkur, söngvari harla sæmilegur og mælskumaður mikill, svo að hann setti saman margar sögubækur heilagra manna í norrænu máli með mikilli snilld. Unnust þeir bróðir Bergur og Laurentius með hjartanlegri elsku, því að alla þá, sem Laurentius sá, að gott vildu nema og til góða vildu hafa sína mennt, elskaði hann.“[1] Einnig finnst sagt frá ábótavígslu Bergs: „Var hann formenntur maður umfram flesta menn þá á Íslandi um klerkdóm, letur, söng og málsnilld. Samansetti hann margar heilagra manna sögur í norrænu, sem birtast mun og auðsýnast, meðan þetta land er byggt. Hér yfir fram hafði sá góði mann ágætt siðferði með klausturlegum lifnaði. Voru þeir Bergur ábóti og Laurentius biskup í kærlegri vináttu.“[2] Bergur mun hafa ritað sögur af Guðmundi góða, heilögum Nikulási, Mikael erkiengli og vísast fleirum.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Laurentiusar saga biskups, 33. kafli.
  2. Laurentiusar saga biskups, 47. kafli.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Finnur Jónsson: Historia Ecclesiastica Islandiæ IV, bls. 44-45, Havniæ MDCCLXXVIII.
  • Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár I, bls. 150, Reykjavík 1948.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]