Fara í innihald

Guðfinna Aðalgeirsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Guðfinna Aðalgeirsdóttir
Fædd20. mars 1972
StörfPrófessor í jarðeðlisfræði við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands

Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir (f. 20. mars 1972) er prófessor í jarðeðlisfræði við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands.

Guðfinna lauk stúdentsprófi af eðlisfræðibraut Menntaskólans á Akureyri 1991 og BS í jarðeðlisfræði frá Háskóla Íslands 1994. Sumrin 1993 og 1994 og veturinn 1994-1995 vann hún á Raunvísindastofnun Háskólans við úrvinnslu íssjármælinga og tók þátt í mælingaferðum á Vatnajökul. Hún lauk M.Sc. prófi í jöklafræði frá háskóla Alaska í Fairbanks Geymt 9 júlí 2019 í Wayback Machine haustið 1997. Hún stundaði doktorsnám í jöklafræði við ETH háskólann í Zürich í Sviss og hlaut dr. sc. nat. gráðu þaðan árið 2003.[1]

Að námi loknu vann hún á Raunvísindastofnun við líkanreikninga fyrir Langjökul, Hofsjökul og Vatnajökul, í samvinnu við jöklafræðinga á Veðurstofu Íslands. Hún gegndi starfi nýdoktors og síðan lektors við Swansea háskóla í Wales árin 2004-2006 og vann þá við rannsóknir á ísstraumnum Rutford icestream á Suðurskautslandinu. Þaðan flutti hún til Danmerkur og starfaði við dönsku veðurstofuna til ársins 2012 við líkanreikninga og rannsóknir á Grænlandsjökli. Árið 2012 var hún ráðin til Háskóla Íslands þar sem hún hefur starfað síðan, fyrst sem dósent og sem prófessor í jarðeðlisfræði við Jarðvísindadeild frá 2017.[1]

Rannsóknir

[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknir Guðfinnu beinast að því hvernig jöklar bregðast við loftslagsbreytingum í fortíð, nútíð og framtíð og hvernig sjávarstaða í kringum Ísland breytist vegna jökla- og loftslagsbreytinga. Rannsóknir hennar felast einkum í því að beita tölvugerðum líkönum til að reikna afkomu og hreyfingu jöklanna, en einnig eru mælingar á jöklunum sjálfum mikilvægur þáttur til að afla gagna fyrir sannprófun líkananna.[2][3] Á hverju ári fer hún með nemendur í jöklafræðinámskeiði við HÍ á Sólheimajökul og setur niður víra sem auðvelda mælingu á leysingu jökulsins yfir sumarið[4] Guðfinna rannsakaði rúmmálsbreytingar jökla í Alaska árið 1996. Í samvinnu við leiðbeinandi hennar Keith Echelmeyer og jöklafræðinga í Alaska flugu þau yfir 67 jökla og staðfestu með laserhæðamæli hvernig rúmmál þeirra hafði rýrnað síðan 1957. Hún þróaði reiknilíkön í doktorsnámi sínu í Sviss sem herma eftir lögun og þróun stærstu íslensku jöklanna og gefa þannig vísbendingar um hvernig þeir munu þróast í framtíðinni. Verkefnið var í samvinnu við vísindamenn á Jarðvísindastofnun HÍ Geymt 9 júlí 2019 í Wayback Machine og Veðurstofu Íslands. Síðar hefur hún notað ísflæðilíkanið PISM Geymt 9 júlí 2019 í Wayback Machine sem þróað er við háskóla Alaska í Fairbanks til að reikna bæði Grænlandsjökul og Vatnajökul. Guðfinna tók þátt í rannsóknum á Suðurskautslandinu sem beindust að því að skilja betur skrið ísstraumsins Rutford Ice stream. Síðar tók hún þátt í að mæla lóðréttan hraða íssins á ísaskilunum Fletscher Promontory sem gefur til kynna hversu seigur ísinn er. Einnig var rannsakað fyrirbærið Raymond hóll sem myndast fyrir neðan ísaskil vegna breytingar í stífleika íssins, hann er stífari þar sem spennurnar eru minni (Sjá nánar: Divide flow and Raymond bumps Geymt 9 júlí 2019 í Wayback Machine). Í fjölmörgum samstarfsverkefnun hefur Guðfinna tekið þátt í að rannsaka afkomu og loftslag yfir Grænlandsjökli og hefur unnið að spám um hvernig það mun líklega breytast í framtíðinni vegna manngerðra loftslagsbreytinga.[2]

Guðfinna hefur leiðbeint doktorsnemendum og nýdoktorum við HÍ, Kaupmannahafnarháskóla, háskólann í Birmingham, Englandi og í Bordeaux í Frakklandi við rannsóknir á Vatnajökli, Grænlandsjökli, smærri íslenskum jöklum (Virkisjökli, Drangajökli, austurhluta Vatnajökuls og fleiri jöklum á Íslandi) þar sem áhersla er á mælingar og líkanreikninga til að skilja betur hvernig jöklar bregðast við loftslagsbreytingum. Einnig snúast verkefnin um að nota tölfræðiaðferðir og stigskipt Bayesískt líkan til að reikna seigju og flæði Langjökuls og hvernig grunnvatnsflæði við þíðjökla þróast vegna loftslagsbreytinga.[2]

Ýmis störf og verkefni

[breyta | breyta frumkóða]

Guðfinna hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum innan og utan háskólans og tekur virkan þátt í að miðla upplýsingum um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jökla til almennings, fjölmiðla og skólabarna. Hún situr í Loftslagsráði samkvæmt tilnefningu háskólasamfélagsins. Hún hefur starfað með stjórn Jöklarannsóknafélags Íslands frá árinu 2014. Guðfinna var í stjórn Jarðvísindastofnunar HÍ árin 2015-2018 og í framhaldsnámsnefnd Jarðvísindadeildar frá 2016. Hún hefur verið fulltrúi Íslands í vinnuhóp Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar um freðhvolf síðan 2014 og verið formaður vinnuhópsins síðan 2018. Hún sat í stjórn evrópska (EU FP7) verkefnisins ice2sea Geymt 9 júlí 2019 í Wayback Machine árin 2009-2012 og var vinnuhópsstjóri í norræna öndvegissetrinu SVALI Geymt 9 júlí 2019 í Wayback Machine árin 2010-2016.

Guðfinna var valin úr hópi vísindamanna til að vera einn af aðalhöfundum 6. Loftslagsskýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Skýrslan er skrifuð fyrir stjórnvöld allra landa heimsins til að útskýra fyrir þeim loftslagsbreytingar af mannavöldum og hvaða áhrif verða vegna þeirra bæði á náttúruna og samfélög. Vinnan hófst sumarið 2018 en skýrslan kemur út í apríl 2021[5] Guðfinna er í 17 manna hópi sem skrifar kafla 9[6] sem fjallar um hafið, freðhvolfið (jöklar, hafís, sífreri, snjór) og sjávarstöðubreytingar (Ocean, Cryosphere and Sea Level Change)[7].

Viðurkenningar

[breyta | breyta frumkóða]

Sumarið 2019 samþykkti nafnanefnd Suðurskautslandsins í Bretlandi (UK Antarctic Place-names Committee) að nefna fjall sem notað hefur verið fyrir GPS viðmiðunarmælingar Tolly Nunatak, en Tollý er gælunafn sem Guðfinna hefur notað síðan hún var barn. Nafn og staðsetning fjallsins er: Tolly Nunatak (78°23’43.9”S, 84°30’15.5”W)[8][9]

  1. 1,0 1,1 „Háskóli Íslands. Guðfinna. Th. Aðalgeirsdóttir“. Sótt 8. júní 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir. Ritaskrá/Publications (nóvember 2018)“. Sótt 8. júlí 2019.
  3. Google Scholar. Gudfinna Adalgeirsdottir.
  4. Háskóli Íslands. (e.d.). Ablation measurements on Sólheimajökull – Glaciology JAR609G/JAR621G. Sótt 4. júlí 2019 af: http://earthice.hi.is/node/900 Geymt 9 júlí 2019 í Wayback Machine
  5. ipcc: Intergovernmental panel on climate change. Sixth Assessment Report (AR6). Sótt 8. júlí 2019 af: https://wg1.ipcc.ch/AR6/AR6.html Geymt 9 júlí 2019 í Wayback Machine
  6. Working Group I. Contribution to the IPCC Sixth Assessment Report (AR6-WG1). Sótt 8. júlí 2019 af: https://archive.ipcc.ch/report/authors/report.authors.php?q=35&p=&p
  7. ipcc: Intergovernmental panel on climate change. Chapter outline of the Working Group I contribution to the IPCC Sixth Assessment Report (AR6). Sótt 8. júlí 2019 af: https://wg1.ipcc.ch/AR6/outline.html Geymt 9 júlí 2019 í Wayback Machine
  8. Háskóli Íslands. (2019). Tindur á Suðurskautslandinu nefndur eftir vísindamanni HÍ. Sótt 8. júlí 2019 af: https://www.hi.is/frettir/tindur_a_sudurskautslandinu_nefndur_eftir_visindamanni_hi
  9. ruv.is. (2019, 25. maí). Tindur nefndur eftir íslenskum prófessor. Sótt 8. júlí 2019 af: https://www.ruv.is/frett/tindur-nefndur-eftir-islenskum-professor

Fræðigreinar

[breyta | breyta frumkóða]