Grunnskólinn á Ísafirði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eyri við Skutulsfjörð

Grunnskólinn á Ísafirði var fyrst formlega settur árið 1874. Hann er einn af fjórum grunnskólum sveitarfélagsins og sá eini í bænum Ísafirði. Áður var skólahald á Ísafirði slitrótt og háð einkaframtaki að stærstum hluta. Skólinn stendur á Eyrinni, í hjarta bæjarins. Haustið 2008 var nýtt hús tekið í notkun og hýsir það list- og verkgreinar, bókasafn og fjórar almennar kennslustofur, auk hluta af Dægradvöl sem er frístundaheimili fyrir nemendur í 1.-4. bekk. Nemendur skólans koma einkum af Eyrinni og nágrenni hennar, Holtahverfi og úr Hnífsdal. Skólabíll ekur þeim sem þurfa að sækja skóla um langan veg.

Stjórn skólans[breyta | breyta frumkóða]

Fræðslunefnd er skipuð fimm fulltrúum. Skóla- og tómstundasvið Ísafjarðarbæjar (STÍ) fer með daglega yfirstjórn þeirra málefna sem falla undir fræðslunefnd.

Við skólann starfa fjórir stjórnendur: Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri unglingastigs og deildarstjóri stoðþjónustu.

Fagteymi kennara sjá um ýmsa þætti í skólastarfinu.

Nemendaverndarráð er starfandi við skólann og er ætlað að samræma störf þeirra aðila sem fjalla um málefni einstakra nemenda. Ráðið er einnig eineltisvarnateymi og aðstoðar umsjónarkennara við úrvinnslu eineltismála sem upp koma. Nemendaráð starfar við skólann og er það kosið árlega af nemendum í 8.-10. bekk. Það vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda.

Samstarf[breyta | breyta frumkóða]

Mikið samstarf er við aðra skóla á norðanverðum Vestfjörðum. Skólarnir fara saman með hóp í Skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði. Einnig er nemendum boðið í heimsóknir og á skemmtanir á milli skóla. Íþróttahátíðin í Bolungarvík hefur verið stór þáttur í þessu samstarfi í mörg ár.

Skólinn hefur tekið þátt í nokkrum Erasmus+ verkefnum. Núna síðast verkefni um Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna sem þurfti að klára í gegnum netið vegna heimsfaraldurs Covid.

Heimildir:[breyta | breyta frumkóða]

Heimasíða Grunnskólans á Ísafirði

Verkefni skólans í Erasmus