Fara í innihald

Glerárkirkja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Glerárkirkja
Almennt
Prestakall:  Glerárprestakall
Núverandi prestur:  Sindri Geir Óskarsson og Stefanía Steinsdóttir
Æskulýðsfulltrúi:  Eydís Ösp Eyþórsdóttir
Byggingarár:  1984 til 1992
Arkitektúr
Arkitekt:  Svanur Eiríksson
Efni:  Steinsteypa
Stærð: 2100 m²
Kór:  Kór Glerárkirkju
Glerárkirkja á Commons

Glerárkirkja er kirkja Glerárprestakalls, sem var stofnað árið 1981 þegar Akureyrarprestakalli var skipt í tvennt. Glerárprestakall er í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Í dag tilheyra íbúar sem eru skráðir í þjóðkirkjuna og búa í póstnúmeri 603 Akureyri yngra prestakallinu. Glerárkirkja var vígð 6. desember 1992 en hluti byggingarinnar hafði þá verið nýttur til messuhalds í nokkurn tíma.

Ágrip af byggingarsögu Glerárkirkju

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 31. maí 1984 tók hr. Pétur Sigurgeirsson biskup fyrstu skóflustunguna á lóð sem sókninni hafði verið úthlutað við Bugðusíðu. Glerárkirkja er alls 2100 fermetrar að stærð á tveimur hæðum. Arkitekt var Svanur Eiríksson en Halldór Jóhannsson landslagsarkitekt sá um skipulagningu lóðarinnar.

Nokkur umræða hafði farið fram um hvar kirkjan ætti að vera staðsett. Þegar árið 1969 hafði verið skipuð byggingarnefnd til að finna nýrri kirkju í Glerárhverfi stað en Lögmannshlíðarkirkja þótti orðin of lítil til að sinna íbúum í Glerárhverfi. Fljótlega kom upp sú hugmynd að kirkjan yrði staðsett á svokölluðum Neðri-ás sem er austan við Glerárskóla á milli Harðangurs og Melgerðis. Ekkert varð af þeim hugmyndum.

Fyrsta messan

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 18. ágúst 1985 var messað í fyrsta sinn í nýju kirkjunni og kirkjugestum kynnt skipulag og framkvæmdir við kirkjuna en hún varð fokheld ári síðar, þann 7. júní 1986. Það var svo þann 15. febrúar 1987 sem hr. Pétur Sigurgeirsson biskup vígði fyrsta hluta kirkjunnar og hófst þá reglulegt messuhald í kirkjunni í þeim hluta hennar þar sem nú er skrifstofuálma.

Vígðir þjónar kirkjunnar

[breyta | breyta frumkóða]
Prestar og fermingarbörn ganga til kirkju í apríl 2007

Sr. Pálmi Matthíasson var sóknarprestur í Glerárprestakalli frá stofnun þess þar til hann var kallaður til starfa í Bústaðarsókn í apríl 1989. Sr. Pétur Þórarinsson tók við af honum og gegndi embættinu í tvö ár en var mikið frá vegna veikinda. Sr. Lárus Halldórsson leysti Pétur af í veikindum hans veturinn 1990 - 1991. Í apríl 1991 voru haldnar prestkostningar og hlaut sr. Gunnlaugur Garðarsson kosningu í embætti sóknarprests.. Í ársbyrjun 2005 var fjölgað um einn prest við söfnuðinn og gegndi sr. Arnaldur Bárðarson þeirri stöðu prests í Glerárkirkju frá árinu 2005 til 2010. Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir tók við af Arnaldi 1. júní 2010 og starfaði við söfnuðinn út sumarið 2014. sr. Jón Ómar Gunnarsson gegndi stöðu prests frá 2014-2017 en þá tók sr.Stefanía Steinsdóttir við og er nú prestur Glerárkirkju. Þá réði sóknin Pétur Björgvin Þorsteinsson djákna til starfa frá 1. janúar 2005 og gegndi hann stöðunni fram á vor 2013. Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni starfaði við söfnuðinn veturinn 2013 - 2014, en 1. ágúst 2014 hóf Sunna Kristrún Gunnlaugsdóttir störf sem djákni og starfaði til 1. september 2020. 1. febrúar 2020 lauk sr.Gunnlaugur störfum eftir tæplega 30 ára starf við kirkjuna, sr. Sindri Geir Óskarsson sem áður hafði þjónað sem sjúkrahús- og héraðsprestur á Akureyri var kosinn í embættið og gegnir því í dag.

Áskell Jónsson var organisti Lögmannshlíðarsóknar frá 1945 til 1987. Þegar hann lét af störfum tók Jóhann Baldvinsson við organistastarfinu og gegndi því fram til ársins 1997. Þá tók Hjörtur Steinbergsson við stöðu organista og gegndi hann því starfi fram til haustsins 2009. Valmar Väljots gegnir í dag stöðu organista kirkjunnar.

Kór Glerárkirkju

[breyta | breyta frumkóða]

Kór Glerárkirkju er blandaður kór sem var stofnaður 12. febrúar 1944 og hét þá Kirkjukór Lögmannshlíðarsóknar en því nafni hélt kórinn fram til ársins 1990. Við kirkjuna eru einnig starfandi tveir aðrir kórar, æskulýðskór og barnakór.

Vefsíða Glerárkirkju