Gaukur Trandilsson
Gaukur Trandilsson (líklega uppi á 10. öld) er persóna í glataðri Íslendingasögu, sem kennd var við hann. Í Möðruvallabók er eyða á milli Njáls sögu og Egils sögu og þar eru tvær illæsilegar línur sem Jóni Helgasyni prófessor tókst loks að lesa og segir þar: „Láttu rita hér við Gauks sögu Trandilssonar, mér er sagt að [Herra] Grímur eigi hana.“ Sagan var þó aldrei skrifuð í eyðuna og glataðist. Grímur hefur líklega verið Grímur Þorsteinsson, riddari og hirðstjóri (d. 1350).
Fáar heimildir aðrar eru um Gauk en hann er nefndur í 26. kafla Brennu-Njáls sögu og segir þar frá því að hann var fóstbróðir Ásgríms Elliða-Grímssonar og hefði verið fræknastur manna og best að sér ger, en „þar varð illa með þeim Ásgrími því að Ásgrímur varð banamaður Gauks.“
Talið er að Gaukur hafi búið á Stöng í Þjórsárdal og átt húsfreyjuna á Steinastöðum að ástkonu en eina heimildin um það er kviðlingur eða viðlag úr danskvæði frá miðöldum:
- Önnur var öldin,
- er Gaukur bjó í Stöng,
- Þá var ei til Steinastaða
- leiðin löng.