Grímur Þorsteinsson
Grímur Þorsteinsson (d. um 1350) var lögmaður, hirðstjóri og riddari á 14. öld.
Grímur var sonur Þorsteins Hafurbjarnarsonar lögmanns og konu hans Guðfinnu Magnúsdóttur. Hans er fyrst getið í heimildum þegar hann kom heim frá Noregi árið 1316 og hafði þá fengið riddaratign. Hann var fyrst lögmaður sunnan og austan 1319-1320. Þegar Snorri Narfason var settur úr embætti 1330 varð Grímur aftur lögmaður, en þá að norðan og vestan. Hann tók við lögsögninni í Stafholti í Borgarfirði, en ekki er þar með sagt að hann hafi átt heima þar. Ekki er fullvíst hvað hann var lengi lögmaður að þessu sinni og hvenær Pétur Halldórsson tók við en það hefur líklega verið 1335.
Grímur sigldi utan 1341 eða 1342 og kom aftur 1343 og hafði þá fengið hirðstjórn. Hann sigldi aftur 1345, kom aftur ári síðar, 1346, og varð þá lögmaður norðan og vestan. Því embætti hélt hann til dauðadags. Annálum ber ekki saman um dánarár hans, 1350–1352.
Á síðustu árum sínum virðist herra Grímur hafa átt jörðina Hraun við Grindavík, og haft tengsl við Herdísarvík og Strandarkirkju í Selvogi (sbr. Íslenskt fornbréfasafn 2 og 4).
Um fjölskyldu hans er það eitt vitað að í annálum segir árið 1347 að Ólafur kláði, sonur herra Gríms, hafi verið höggvinn.
Í handritinu Möðruvallabók er hripað neðanmáls: „Láttu rita hér við Gauks sögu Trandilssonar, mér er sagt að [Herra] Grímur eigi hana.“ Þetta er eina örugga heimildin um þessa glötuðu Íslendingasögu.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
- Jón Helgason: Gauks saga Trandilssonar. Bergen 1939. — Sérprent úr Heidersskrift til Gustav Indrebø, 92–100.
Fyrirrennari: Guttormur Bjarnason |
|
Eftirmaður: Guðmundur Sigurðsson | |||
Fyrirrennari: Snorri Narfason |
|
Eftirmaður: Pétur Halldórsson | |||
Fyrirrennari: Pétur Halldórsson |
|
Eftirmaður: Pétur Halldórsson | |||
Fyrirrennari: Bótólfur Andrésson |
|
Eftirmaður: Holti Þorgrímsson |