Fara í innihald

Galdrastafur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Galdrastafir)
Lásabrjótur
Ægishjálmur
Galdrastafurinn Vegvísir eins og Björk poppari er með á vinstri upphandlegg

Galdrastafir eru tákn sem eru notuð í þeim tilgangi til að ná stjórn á náttúruöflunum eða reyna að stýra framvindu mála.

Íslenskir galdrastafir eiga sér mismunandi rætur. Sumir eru greinilega runnir frá rúnaletri og eru þá myndaðir úr samsettum rúnum, en aðrir eru vafalaust innfluttir og ber þar mest á ýmiskonar innsiglum sem finna má í dulspeki miðalda. Þeir eru varðveittir í margvíslegum handritum og skræðum.

Sumir galdrastafir bera nöfn en aðrir ekki og þeim fylgja jafnan leiðbeiningar um til hvers þeir eru ætlaðir og hvað þarf að gera til að þeir virki rétt. Því máttugri sem galdurinn var, því erfiðara er yfirleitt að framkvæma hann. Tilgangurinn með notkun stafanna er margvíslegur, sumir eru ætlaðir til verndar eða lækninga og aðrir til að gera öðrum illt. Fjölmargir íslenskir galdrastafir eru til að verjast þjófnaði eða finna þjóf og annar stór hluti eru ástargaldrar, flestir til að verða sér úti um kvenmann.

Galdraskræðurnar eru alls ekki alltaf sammála um heiti og tilgang einstakra stafa, en sjálf táknin má finna nákvæmlega eins í eldri og yngri skræðum. Í galdramálum sem upp komu á Íslandi á 17. öld er yfirleitt um að ræða stafi eða blöð sem ætluð eru til að létta sér lífsbaráttuna, en lítið bar á svartagaldri eða meingaldri.

Einn elsti og þekktasti galdrastafurinn er sennilega verndarstafurinn Ægishjálmur sem er merki Strandasýslu og er hann til í ýmsum myndum í fjölmörgum skræðum.

Björk Guðmundsdóttir lét húðflúra galdrastafinn Vegvísir á vinstri handlegginn sinn.

Um galdrastafi er til sú hjátrú að ekki megi draga línurnar í átt að sér því þá virkar galdurinn gegn manni.

Fleiri galdrastafir

[breyta | breyta frumkóða]