Fara í innihald

Tíðbeyging sagna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Framtíð (málfræði))

Eiginlegar tíðir sagna í íslensku eru tvær; nútíð (skammstafað sem nt.) og þátíð (skammstafað sem þt.).[1] Íslenskan gerir formlegan greinarmun á nútíð og þátíð sagna; hann talar (nt.), hann talaði (þt.).

nútíð þátíð
Ég les skemmtilega bók. Ég las skemmtilega bók.
Myndin er mjög skemmtileg. Myndin var mjög skemmtileg.
Þú trúir mér ekki. Þú trúðir mér ekki.

Með „nútíð“ er þó ekki einungis átt við verknað sem stendur yfir nákvæmlega þá stundina sem sögnin er yrt heldur einnig ýmsum tímahorfum; nýliðnum tíma, óliðnum tíma, reglubundnum tíma o.s.frv. Af þessu ræðst tíðbeyging sagna. Með hjálparsögnunum hafa og munu má mynda sex samsettar tíðir sagna:

  • Núliðin tíð: Ég hef talað
  • Þáliðin tíð: Ég hafði talað
  • Framtíð: Ég mun tala
    Framtíð var lengi vel talin sérstök tíð sagnbeygingar. Hugtakið var notað yfir orðasambönd sem voru samsett úr hjálparsögninni munu og nafnhætti aðalsagnarinnar. Dæmi: Ég mun koma. [heimild vantar]
  • Þáframtíð: Ég mun hafa talað
    Þáframtíð er samsett beyging sagna með hjálparsögnunum munu og hafa. Þáframtíð lýsir óvissu um að verknaður eða ástand hafi átt sér stað eða því að staðhæfingin er höfð eftir öðrum (t.d. hann mun hafa komið)
  • Skildagatíð: Ég myndi tala
  • Þáskildagatíð: Ég myndi hafa talað

Þessar sex tíðir hafa allar sérstaka merkingu sem snertir stöðu atburðar eða verknaðar miðað við tímann í setningunni. Núliðin og þáliðin tíð gefa til kynna að verknaði sé lokið. Framtíð með munu lýsir óloknum verknaði en henni fylgir oft vafi. Hrein framtíð er oftast mynduð með nútíðarsniði; „Ég tala á morgun“. Þáframtíð segir að verknaði sé lokið en sýnir óvissu. Skildagatíðirnar tákna skilyrtan verknað.

Hjálparsagnir geta verið fleiri en ‚hafa‘ og ‚munu‘, til dæmis ‚skulu‘, ‚vilja‘, ‚vera‘, ‚verða‘ og ‚ætla‘.

  • „Er til tíð í íslensku sem heitir skildagatíð?“. Vísindavefurinn.
  • Bjarni Ólafsson (1995). Íslenskur málfræðilykill. Mál og menning. ISBN 9979-3-0874-5.
  • Þórunn Blöndal (1985). Almenn málfræði. Mál og menning.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Hugtakaskýringar - Málfræði