Fara í innihald

Flóabardagi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Flóabardagi er eina sjóorrustan sem háð hefur verið við Ísland þar sem Íslendingar hafa skipað bæði lið. Bardaginn átti sér stað 25. júní 1244.

Þeir sem þarna börðust voru Þórður kakali Sighvatsson og Kolbeinn ungi Arnórsson. Þórður var með liðssafnað sem hann hafði dregið saman á Vestfjörðum og hafði 15 skip af ýmsum stærðum og gerðum og 210 menn eftir því sem segir í Sturlungu, en Kolbeinn ungi var með norðlenskt lið, hafði 20 skip og u.þ.b 600 menn. Þórður sigldi skipum sínum úr Trékyllisvík á Ströndum en mætti á miðjum Húnaflóa flota Kolbeins, sem hafði siglt úr Selvík á Skaga og ætlaði að taka land á Ströndum til að eltast við Þórð og hans menn og sló þegar í bardaga með liðunum.

Aðalvopnin voru grjót og eldibrandar auk þess sem menn reyndu að sigla skipunum hverju á annað til að sökkva þeim. Þrátt fyrir mikinn liðsmun tókst Þórði og mönnum hans lengi vel að hafa í fullu tré við menn Kolbeins. Þótt þeir þyrftu á endanum að leggja á flótta tókst Kolbeini ekki að elta þá uppi og var hann almennt talinn hafa beðið afhroð í bardaganum. Kolbeinn fór síðan ránshendi um Strandir og tók eða eyðilagði öll skip og báta sem hann fann.