Fara í innihald

Lúða

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Flyðra)
Lúða
Lúða
Lúða
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki Animalia
Fylking: Seildýr Chordata
Flokkur: Geisluggar Actinopterygii
Ættbálkur: Flatfiskar Pleuronectiformes
Ætt: Flyðruætt Pleuronectidae
Ættkvísl: Hippoglossus
Tegund:
H. hippoglossus

Tvínefni
Hippoglossus hippoglossus
(Linnaeus, 1758)

Lúða (hefur verið nefnd fjölmörgum nöfnum, sem dæmi flyðra, heilagfiski, spraka eða stórlúða) (fræðiheiti: Hippoglossus hippoglossus) er langlífur flatfiskur af flyðruætt. Útbreiðslusvæði lúðu er bæði á grunn- og djúpslóð í Norður-Atlantshafi. Hún er algengust í norðanverðu Noregshafi, við Færeyjar og Ísland og meðfram ströndum Nýfundnalands og Nova Scotia. Lúðan getur orðið allt að 35 – 40 ára gömul. Lúða og Kyrrahafslúða eru stærstu tegundir flatfiska og geta orðið allt að 3 - 4 m langar. Stærsta lúðan sem veiðst hefur við Ísland var 365 cm og 266 kg.

Lífshættir

[breyta | breyta frumkóða]

Lúður eru seinkynþroska, hængar verða að meðaltali kynþroska 8 ára og um 90–110 sm, en hrygnur að jafnaði 12 ára og 120–130 sm. Talið að hrygningartími lúðu við Ísland sé frá mars til maí og að lúðan hrygni djúpt suður af Íslandi á allt að 1000 m dýpi. Egg og seiði eru sviflæg í 6–7 mánuði. Líklegt er talið að egg færist upp á við í sjónum eftir hrygningu og að seiðin berist með Atlantsstraumnum upp að suðurströnd Íslands. Ungviðið sest á botn þegar það er um 3–4 sm að lengd og eru uppeldisstöðvar lúðunnar á grunnsævi nálægt ströndu til dæmis í Faxaflóa. Lúðan heldur sig á uppeldisstöðvum þar til hún er orðin 3–5 ára en þá fer hún í dýpri sjó í leit að fæðu. Lúðan ferðast langar leiðir, sérstaklega áður en hún verður kynþroska. Merkingar hafa sýnt að lúður ferðast allt frá 500 km og upp í meira en 3 000 km. Lúðan yfirgefur hrygningarsvæði eftir hrygningu á vorin í ætisleit og ganga sumar hrygnur þá á grunnmið. Á haustin og í vetrarbyrjun leitar lúðan aftur á hrygningarsvæðin.

Lúðuveiðar við Ísland

[breyta | breyta frumkóða]

Lúða hefur verið veidd í Norður-Atlantshafi í meira en tvær aldir og sums staðar hefur stofninum verið útrýmt. Lúða hefur einnig verið ofveidd við Ísland. Lúðuafli er nú í sögulegu lágmarki, hann var 630 tonn árið 2005. Mestur var afli Íslendinga árið 1951 eða 2364 tonn. Langlífum fiskum sem verða kynþroska seint á lífsleiðinni eins og lúðan er sérlega hætt við ofveiði. Lúðan sem veiðist nú á Íslandsmiðum er að mestu ókynþroska fiskur, veiddur sem meðafli í öðrum veiðum.

Lúðuveiðar voru stundaðar fyrir utan Vestfirði árin 1884-1898 af Bandaríkjamönnum. Lúðan var veidd á línu, flökuð og söltuð í tunnur. Lúðan sem var veidd á Íslandsmiðum var stór og oft var veiðin mikil. Seinna fóru fleiri þjóðir að veiða lúðu við Ísland og þá einnig með botnvörpu og seinna með dragnót. Sóknin var mikil og aflinn hríðféll.

Lúður eftir stærð

[breyta | breyta frumkóða]

Lúður eru á íslensku nefndar hinum ýmsu nöfnum eftir stærð. Og oft á mismunandi hátt einnig eftir landshlutum. Á suðurnesjum er minnsta lúða kölluð lok, næst lóa, þá smálúða, þá stofnlúða, þá flakandi lúða, þá stórflyðra og stærst allra alfiskisflyðra. Smálúður undir stofnlúðustærð eru á Vestfjörðunum nefndar lóur, en á Norðurfjörðunum lok.

Lúðueldi var stundað á Íslandi frá 1997 og var áætlað tæp 196 tonn árið 2006 en hefur nú lagst af.

  • „Lúðan (Hippoglossus hippoglossus) við Ísland og hugmyndir um aðgerðir til verndunar hennar (Hafrannsóknarstofnun 2003)“ (PDF). Sótt 8. ágúst 2006.
  • „Fiskeldi á Íslandi í tölum“. Sótt 8. ágúst 2006.