Flosi Einarsson
Flosi Einarsson (fæddur árið 1961) er íslenskur tónlistarmaður. Hann stundaði nám við Tónlistarskólann á Akranesi í æsku og byrjaði á því að læra á klarinett en píanóið tók við er unglingsárin færðust yfir. Flosi byrjaði snemma á því að leika í hljómsveitum en lengst af lék hann með hljómsveitinni Tíbrá frá Akranesi.
Hann stundaði nám við Kennaraháskóla Íslands (1983-1986) og seinna nam hann við Tónlistarskólann í Reykjavík (1999-2000). Frá því Flosi lauk námi hefur hann kennt við Grundaskóla á Akranesi. Einnig hefur hann kennt við Kennaraháskóla Íslands síðan 2005. Árið 2001 og 2002 stundaði Flosi nám við Berklee College of Music í Boston og lagði þar stund á djasspíanóleik auk þess sem hann tók áfanga er tengdust kvikmyndatónlist.
Í gegnum árin hefur Flosi spilað með ýmsum tónlistarmönnum, einsöngvurum og kórum. Í Grundaskóla á Akranesi hefur Flosi einnig lagt mikla rækt við söngleikjastarf og samið og sett upp ásamt fleirum fjóra söngleiki. Þar er um að ræða Frelsi (2002), Hungangsflugur og Villiketti (2005), Draumaleit (2007) og Vítahringur (2008). Í tengslum við áðurnefnda söngleiki útsetti Flosi og tók upp alla tónlist sem jafnframt var gefin út á geisladiskum
Einnig hefur Flosi starfað sem tónlistarstjóri í fjöldamörgum söngleikjum fyrir Fjölbrautaskóla Vesturlands og Skagaleikflokkinn.