Eyvindur Loðinsson
Útlit
Eyvindur Loðinsson var landnámsmaður í Flateyjardal í Suður-Þingeyjarsýslu. Ekki er getið um landnámsjörð hans.
Faðir Eyvindar var að því er segir í Landnámabók Loðinn öngull, sem fæddur var í Öngley á Hálogalandi. Hann hraktist undan Hákoni jarli Grjótgarðssyni til Íslands en dó á leiðinni. Eyvindur sonur hans nam Flateyjardal upp til Gunnsteina og blótaði þá. „Þar liggur Ódeila á milli og landnáms Þóris snepils,“ segir í Landnámu. Þessi örnefni eru nú óþekkt en Þórir snepill Ketilsson var landnámsmaður í Fnjóskadal.
Í Landnámabók segir að sonur Eyvindar hafi verið Ásbjörn dettiás, faðir Finnboga ramma, en í Finnboga sögu ramma er faðir Ásbjarnar sagður hafa heitið Gunnbjörn Ingjaldsson.