Eldgjá
63°57′47″N 18°37′08″V / 63.96306°N 18.61889°V
Eldgjá er gjá á Skaftártunguafrétti í Vestur-Skaftafellssýslu sem talið er að hafi myndast í stórgosi sem hófst vorið 939 og stóð fram á haust 940. [1] Lengi var talið að gosið hefði átt sér stað 934 og varað í nokkur ár en sú skoðun breyttist upp úr 2015. [2] Eldvörp Eldgjárgossins raðast slitrótt á meira en 60 km langa línu langleiðina frá Vatnajökli og inn undir Mýrdalsjökul við Öldufell. Suðvestast er svo sjálf Katla og Kötlu-askjan, kjarni eldstöðvakerfisins. Þorvaldur Thoroddsen skoðaði Eldgjá fyrstur vísindamanna árið 1893 og gaf henni nafn. [3] Á síðari árum hafa margir jarðvísindamenn komið að rannsóknum á Eldgjá. [4] [5] [6] [7] [8]
Eldstöðvarnar
[breyta | breyta frumkóða]Skipta má gossprungunni í þrjá aðalhluta. Nyrst eru Kambagígar og gígar við Stakafell, sem ná allt norður að Tröllhamri þaðan sem stutt er í Vatnajökul Á miðhluta sprungunnar er Eldgjá sjálf og gígar og sprungur beggja vegna við hana. Suðurhlutinn sem er gígaröð norður af Öldufelli sem hverfur inn undir Mýrdalsjökul með stefnu á Kötlu. Eldgjá er stórbrotnust frá veginum sem liggur yfir hana, Fjallabaksleið nyrðri, og norður að Gjátindi. Þar er hún óslitin, víða um 600 m breið og allt að 200 m djúp. Í gjárbörmunum eru gjallskriður og hamrabelti oft með rauðum lit. Áin Nyrðri-Ófæra fellur ofan í gjána norðarlega í tveimur fossum, Ófærufossum, og streymir eftir gjárbotninum, lygn milli gróinna bakka. Sunnar fellur Syðri-Ófæra um Eldgjá.
Hraun og gjóska
[breyta | breyta frumkóða]Gríðarmikið hraunflóð hefur runnið frá Eldgjá. Hraunið heitir engu einu nafni þótt jarðfræðingar kalli það stundum Eldgjárhraun. Hlutar af því eru Álftavershraun, Meðallandshraun, Landbrotshraun, Stakfellshraun o.fl. Mesti hraunstraumurinn kom úr Eldgjá sjálfri og öðrum gígum á miðhluta sprungunnar. Hann fossaði niður Skaftárgljúfur og breiddi síðan úr sér á láglendinu og mynduðu tvær miklar tungur, Landbrotshraun og Meðallandshraun. Gríðarleg umbrot hafa orðið er Landbrotshraunið rann því það er alsett gervigígum. Frá suðurhluta sprungunnar fossaði hraunið í tiltölulega mjóum straumi suður um Álftaversafrétt meðfram austurjaðri Mýrdalsjökuls en breiddi síðan mikið úr sér sunnan við Atlaey og flæddi í breiðum straumi suður Mýrdalssand, yfir Álftaver og allt til strandar. Hraunin þekja samtals um 800 km2.[9] Katla sjálf gaus gríðarmiklu öskugosi á sama tíma, þykkt öskulag lagðist yfir nærsveitir hennar og vatns og gjóskuflóð geystust niður Mýrdalssand.
Umhverfisáhrif
[breyta | breyta frumkóða]Þótt gosið hafi orðið á sögulegum tíma fer afar litlum sögum af því. Þó er talið að þess sé getið í Landnámu [10] en þar segir af fjölmennri byggð í Álftaveri sem menn urðu að flýja þegar jarðeldur rann þar yfir. Hraunið frá Eldgjá er mesta hraun sem runnið hefur í einu gosi á jörðinni á sögulegum tíma og hugsanlega er Eldgjárgosið mesta hraungos sem mannskepnan hefur nokkru sinni orðið vitni að.
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Oppenheimer, C., Orchard, A., Stoffel, M., Newfield, T.P., Guillet, S., Corona, C., Sigl, M., Di Cosmo, N., og Büntgen, U. 2018. „The Eldgjá eruption: timing, long-range impacts and influence on the Christianisation of Iceland.“ Climatic Change 147, bls. 369-381
- ↑ Árni Hjartarson 2018. Eldgjárgos og Landnámsgjóska, ártöl og tímasetningar. Árbók hins íslenzka Fornleifafélags 108, bls187-198.
- ↑ Þorvaldur Thoroddsen 1925. Die Geschichte der islandischen Vulkane. AF Høst & Son, Kongelige Hof-Boghandel. Bianco Lunos Bogtrykkery København.
- ↑ Guðrún Larsen 1979. Um aldur Eldgjárhrauna. Náttúrufræðingurinn 49. 1–26.
- ↑ Guðrún Larsen 2000. Holocene eruptions within the Katla eruptive system, south Iceland: Characteristics and environmental impact. Jökull 49. 1–28.
- ↑ Þorvaldur Þórðarson, Miller, D.J., Guðrún Larsen, Self, S. & Haraldur Sigurðsson 2001. New estimates of sulfur degassing and atmospheric mass-loading by the 934 AD Eldgjá eruption, Iceland. Journal of Volcanology and Geothermal Research 108. 33–54.
- ↑ Robson, G.R. 1957. The Volcanic Geology of Vestur-Skaftafellssýsla, Iceland. PhD thesis, Univ. Durham, England. 259 bls.
- ↑ Miller, D.J. 1989. The 10th century eruption of Eldgjá, Southern Iceland. Nordic Volcanological Institute Publication 8903, Reykjavik, Iceland. 30 bls.
- ↑ Árni Hjartarson 2011. Víðáttumestu hraun Íslands. Náttúrufræðingurinn 81, 37-49.
- ↑ Landnáma. Íslensk fornrit I, Hið Íslenska fornritafélag 1968. Bls. 330.