Eiríkur Björnsson víðförli
Eiríkur Björnsson, kallaður víðförli (1733 - 1791) var prestsonur frá Hjaltabakka í Húnavatnssýslu. Hann var einn víðförlasti Íslendingur sinnar tíðar, heimsótti m.a. Kína og ritaði stutta ferðasögu.
Lífshlaup
[breyta | breyta frumkóða]Eiríkur var sonur Björns Þorlákssonar og Kristínar Halldórsdóttur, einn átján systkina. Hann hóf snemma að stunda smíðar og hélt 23 ára gamall til Kaupmannahafnar að nema skipasmíði. Þar réðst hann sem skipasmiður á fleyið Juliane Marie sem var á leið í 16 mánaða ferð til Kína frá mars 1763 og fram á sumar 1764. Sama ár hélt hann svo í aðra siglingu til Asíu. Ferðasögu sína ritaði Eiríkur í Kaupmannahöfn 1768 og spannaði hún tímabilið frá 1756-68. Hann var þá staðráðinn í að hætta heimshornaflakki enda hugðist hann festa ráð sitt. Hann starfaði sem steinsmiður það sem eftir var og var jarðsettur í Kaupmannahöfn árið 1791.
Víðferlissaga
[breyta | breyta frumkóða]Sögu sína nefndi Eiríkur Víðferlissögu og hefur hún varðveist í þremur handritum, misgóðum og innbyrðis ólíkum. Var hún lengst af lítt kunnug Íslendingum, en nokkrir fræðimenn birtu þó staka kafla úr henni uns hún var gefin út í heild sinni árið 2007.
Frásögnin hefst á ferð Eiríks til Kaupmannahafnar og ævintýrum hans í smíðanáminu. Meðal þess sem þar dró til tíðinda var viðureign Eiríks við ungan þjón sem gengið hafði af göflunum, myrt konu og sært tvær manneskjur að auki. Tókst Eiríki með herkjum að yfirbuga manninn sem síðar hlaut dauðadóm fyrir ódæðið.
Fljótlega eftir að Eiríkur réð sig til sjós lagði hann af stað í leiðangur til Kína. Siglt var fyrir Góðrarvonarhöfða og lýsir hann aðbúnaðinum í þrúgandi hitanum á leiðinni. Frásögnin dregur fram harðneskjuna um borð þar sem grimmilegum refsingum var beitt fyrir hvers kyns afbrot. Ekki var Eiríkur eini Íslendingurinn um borð, þar sem fram kom að íslenskur háseti, Guðmundur Jónsson, hafi dáið á leiðinni.
Eiríkur lýsir lífinu í Kína og vandar heimamönnum ekki kveðjurnar fyrir hversu þjófóttir þeir væru. Kínverskar konur sagði hann rómaðar fyrir fegurð sína, en þeirra væri þó rækilega gætt þannig að útlendir menn fengju ekki að berja þær augum. Á leiðinni til baka staðnæmdist skipið við eyjuna Ascension. Þar gæddu sæfararnir sér á skelpöddum, sem Eiríkur sagði ljúffengasta kjöt sem hann hefði borðar. Veiddi áhöfnin skjaldbökurnar í tugavís og borðaði næstu vikurnar. Var til þess tekið hversu skamman tíma ferðin til Kína tók að þessu sinni.
Seinni ferð Eiríks í austurveg hófst síðar á árinu 1764. Staðnæmst var á Indlandi þar sem Eiríkur heimsótti m.a. Kalkútta. Heillaðist hann af landinu og lýsti af aðdáun ýmsum þeirra undra sem hann sá og upplifði. Einkum var hann áhugasamur um trúarbrögð heimamanna og ýmsar athafnir þeim tengdum.
Gamli Nói
[breyta | breyta frumkóða]Það verk Eiríks Björnssonar sem flestir Íslendingar kannast við er væntanlega þýðing hans á kvæðinu um Gamla Nóa eftir sænska söngvaskáldið Carl Michael Bellman. Hún kom út í Kaupmannahöfn árið 1787 og mun vera fyrsta kvæðið eftir Bellmann sem snarað var á íslensku. Þýðingin, sem er mjög frábrugðin uprunalega textanum, er á þessa leið:
Gamli Nói, gamli Nói,
guðhræddur og vís.
Mikils háttar maður,
mörgum velviljaður.
Þótt hann drykki, þótt hann drykki
þá samt bar hann prís.
Aldrei drakk hann, aldrei drakk
hann of mikið í senn.
Utan einu sinni
á hann trúi' ég rynni.
Glappaskotin, glappaskotin
ganga svo til enn.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Þorsteinn Antonsson og María Anna Þorsteinsdóttir: Fyrstu sögur : Víðferlissaga. Sagan af Niels eldra og Níels yngra. Sagan af Árna ljúflingi. Eiríkur Loftsson og Jón Geirmundarson. Bókmenntir kvenna, Reykjavík 2007.
- Morgunblaðið, 18. mars 2009, Ingveldur Geirsdóttir: Fjölhæfur Gamli Nói.