Fara í innihald

Einstein-turninn (Potsdam)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Einstein-turninn er sérkennilegur í laginu

Einstein-turninn er nýtískuleg stjörnuathugunarstöð sem Albert Einstein og Erwin Freundlich hönnuðu sameiginlega í þýsku borginni Potsdam.

Turninn[breyta | breyta frumkóða]

Meðan Albert Einstein vann að útfærslu almennu afstæðiskenningarinnar 1911-1915, skoraði hann á vísindamenn að sannreyna kenningu sína. Það var vísindamaðurinn Erwin Freundlich, góðkunningi Einsteins, sem vildi búa til stjörnustöð og sannreyna kenninguna. Hann og Einstein bjuggu sameiginlega til teikningarnar ásamt Erich Mendelsohn arkítekt, en á þessum tíma var Einstein prófessor við Humboldt-háskólann í Berlín. Húsið var hins vegar ekki reist fyrr en 1919-1922 og vegna hins sérkennilega útlits var það þegar kallað Einsteinturm. Ísetning hinna viðkvæmu tækja tók einnig langan tíma, en 1924 var stöðin fullbúin. Húsið er afar sérkennilegt í laginu, en efst eru rennihurðirnar sem opna og loka fyrir stjörnusjónaukann. Sjónaukinn stendur á eigin sökkli og er ekki áfastur né tengdur húsinu sjálfu. Stjörnustöðin átti í miklum erfiðleikum vegna tíðra skemmda á steypu hússins. Steypubyggingar voru á þessum tíma ekki fullþróaðar, sérstaklega ekki byggingar í óreglulegu formi. Eftur aðeins 5 ár þurfti að gera bygginguna upp með ærnum tilkostnaði. Í loftárásum 1945 sprakk sprengja nálægt húsinu og skemmdist það lítillega. Eftir stríð var sama sagan. Bilanir voru tíðar og sífellt þurfti vinna að viðgerðum. 1990 var jafnvel talið að húsið væri ónýtt, en dýrar endurbætur björguðu því. Það er friðað í dag.

Vísindin[breyta | breyta frumkóða]

Einstein og Freundlich hönnuðu stöðina með það fyrir augum að mæla beygingu á rauðu ljósi nálægt sólinni og þar með staðfesta eitt af þeim fyrirbærum sem afstæðiskenningin spáir fyrir um. En sökum þess hve miklar truflanir gengu út frá sólinni reyndist þeim ekki unnt að fá nákvæmar mælingar á þessum tíma. Það var ekki fyrr en á sjötta áratugnum að réttar niðurstöður fengust á þessari stjörnustöð. Einstein var þá búsettur í Bandaríkjunum og lést 1955. Í dag er stöðin aðallega notuð fyrir rannsóknir á sólinni.

Brjóstmynd af Einstein[breyta | breyta frumkóða]

Í anddyri stjörnustöðvarinnar er brjóstsmynd af Einstein úr bronsi. Hún stóð upphaflega í vinnusalnum. 1933, þegar nasistar komust til valda í Þýskalandi, flúði Einstein land, enda af gyðingaættum. Nasistar tóku stjörnustöðina og breyttu heiti hennar. Þeir fyrirskipuðu einnig að bræða brjóstmyndina. En eftir stríð fannst brjóstmyndin vel falin í geymslu hússins. Einhver mun hafa óhlýðnast fyrirskipunum og bjargað myndinni á þennan hátt.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]