Fara í innihald

Einar Þórólfsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Einar Þórólfsson varð fyrstur manna til að fá borgarabréf í íslenskum kaupstað og varð fyrsti borgarinn í Reykjavík árið 1787 þegar Einokunarverslunin hætti og allir þegnar Danaveldis gátu stundað verslun. Í borgaraskrám Skúla Magnússonar landfógeta frá 1791 kemur fram að Einar sé frá Kaupmannahöfn og versli sem lausakaupmaður í Reykjavík en lítið vöruúrval sé í verslun hans. Einar sjái einnig um laxveiði í Borgarfirði og selji lax. Einar Þórólfsson fékk borgararéttindi að hvötum Chr. H. D. von Levetzows stiftamtmanns og varðveist hefur hollustueiður hans við Danakonung. Einar virðist hafa haft aðalatvinnu sína af því að selja saltaðan lax til útflutnings.

Einar er talinn fæddur um 1740 og foreldrar hans voru Þórólfur Arason og Signý Vermundardóttir sem þá bjuggu í Lundarreykjadal eða Skorradal. Hann ólst upp í Mýrarsýslu. Einar var bústjóri hjá Guðríði Einarsdóttur stjúpu sinni í Síðumúla um 1770.