Fara í innihald

Eiðsivaþingslög

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
«Hér stóð Eiðsivaþingið». Minnisvarði á Eiðsvelli.

Eiðsivaþingslög getur merkt tvennt:

  • Svæðið eða umdæmið, þar sem Eiðsivaþingslögin giltu, þ.e. Upplönd, með Guðbrandsdal og Austurdal.
  • Lögin sjálf.

Eiðsivaþing

[breyta | breyta frumkóða]

Oftast er ritað Eiðsivaþing, en nafnið er nokkuð á reiki. Í Heimskringlu og fleiri ritum er talað um Heiðsævisþing og Heiðsævislög. Johan Fritzner telur að Heiðsær hafi verið annað nafn á vatninu Mjörs; fylkið Heiðmörk liggur að því að austan og upphaflega var þingið fyrir byggðirnar umhverfis Mjörs. Hugsanlegt er að nafnið hafi breyst af því að þingið var löngum háð á Eiðsvelli, sem er við suðurenda vatnsins. Stundum sjást nafnmyndirnar Eiðsifaþing og Eiðsifjaþing.

Í konungasögum kemur fram að Hálfdan svarti hafi komið á þingi fyrir Upplönd, sem voru kjarninn í Eiðsivaþingslögunum.

Upphaflega var þingið haldið á Akri eða Stórakri, sem er skammt frá Hamri. Á dögum Ólafs helga Noregskonungs, 1015-1030, var þingstaðurinn fluttur að Eiðsvelli. Þá náði umdæmið yfir Raumafylki (Raumaríki), Heinafylki (Heiðmörk) og Haðafylki (Haðaland). Síðar bættust við Guðbrandsdalur og Austurdalur.

Á síðari öldum var þetta þing kennt við Upplönd (Oplandenes lagdöme) og hélst það til 1797.

Eiðsivaþingslögin fornu

[breyta | breyta frumkóða]

Eiðsivaþingslögin fornu eru glötuð, að öðru leyti en því að kristinrétturinn úr þeim er varðveittur. Þó er í Norska ríkisskjalasafninu lítið brot úr veraldlega réttinum (NRA 1A, úr handriti frá því um 1230). Kristinrétturinn hafði lagagildi lengi eftir að Landslög Magnúsar lagabætis voru lögfest, 1274, og hefur það stuðlað að varðveislu hans. Hins vegar hafa menn ekki hirt um að geyma lögbækur með ógildum veraldlegum rétti, sem er því glataður.

Eiðsivaþings-kristinrétturinn er til í tveimur gerðum:

  • Eldri og ítarlegri gerð. Aðalhandrit AM 68 4to, frá byrjun 14. aldar.
  • Yngri og styttri gerð. Aðalhandrit AM 58 4to, frá miðri 14. öld.

Báðar gerðirnar eru prentaðar í Norges gamle love indtil 1387, 1. bindi.

  • Johan Fritzner: Ordbog over det gamle norske Sprog. Omarbeidet, forøget og forbedret udg. 1–3, 1883-1896.
  • Steinar Imsen og Harald Winge: Norsk historisk leksikon, 2. útg., Oslo 2004, bls. 236-239.