Fara í innihald

Efnavopn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Efnavopn er vopn sem notast við eituráhrif efnasambands til þess að skaða, drepa eða gera óvini óvirka.

Hugtakið er illa skilgreint og hefur margar merkingar. Í Genfarsáttmálanum frá 1925 eru efnavopn skilgreind sem þær gastegundir sem valda köfnun eða eitrun og aðrar gastegundir sem notaðar eru í hernaði ásamt vökvum, öðrum efnum og búnaði sem er notaður í þeim tilgangi. Í íslenskum lögum eru efnavopn skilgreind sem eiturefni og forstigsefni þeirra, nema þau séu ekki ætluð til hernaðarlegra nota sem og skotfæri og tæki sem sérstaklega eru gerð til að valda bana eða öðrum skaða með eituráhrifum eiturefna og að lokum hvern þann búnað sem sérstaklega er gerður til að nota við beitingu slíkra skotfæra og tækja. Til dæmis er af þessum skilgreiningum báðum óljóst hvort eigi að telja til efnavopn þau vopn sem ætluð eru að valda dýrum eða plöntum skaða með eituráhrif tiltekinna efnasambanda á þær lífverur og um það er deilt, hvort slíkt eigi að gera. Í þessarri grein er stuðst við tiltölulega víða skilgreiningu á því, hvað séu efnavopn.

Saga notkunar efnavopna

[breyta | breyta frumkóða]

Það að eitra vatnsból andstæðinga manns og slíkar aðgerðir gætu hæglega flokkast undir notkun efnavopn og slíkar frumstæðar aðfarir við efnahernað hafa tíðkast frá örófi alda. Sömuleiðis hefur það lengi verið stundað, að bera eitur á örvar, spjót, byssukúlur og annað til að gera viðkomandi vopn banvænni. Einnig þekkjast dæmi þess að líkum þeirra sem létust af smitsjúkdómum hafi verið varpað inn fyrir virkisveggi til að smita setuliðið. Meiri háttar notkun efnavopna á kerfisbundinn hátt var hins vegar fyrst reynd í fyrri heimsstyrjöldinni og hafa þau aldrei síðan verið notuð á slíkum skala. Þar var efnavopnum beitt mikið af báðum stríðandi fylkingum

Efnavopn í fyrri heimsstyrjöld

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstir til að beita efnavopnum í því stríði voru Frakkar, sem strax í upphafi stríðs beittu Xylylbrómíði, táragasi, gegn Þjóðverjum. Þjóðverjar beittu efnavopnum fyrstu af ráði í annarri orrustunni um Ypres, en það var líka í fyrsta skipti sem Klórgasi var beitt í hernaði í stórum stíl. Þjóðverjar notuðu að því sinni þá frumstæðu aðferð að opna tanka af klóri þegar vindátt var hagstæð og láta gasið færast með vindinum yfir einskismannsland að skotgröfum andstæðinganna. Klórgas er þyngra en loft og færðist með fram jörðinni og settist að í dældum í landslaginu, þar á meðal í skotgröfum. Bretar beittu efnavopnum í stórum stíl fyrst í orrustunni um Loos-en-Gohelle 1915, þá klórgasi. Meðal þekktustu annarra efnasambanda sem voru notuð í fyrri heimsstyrjöldinni voru fosgen og hið svokallaða sinnepsgas. Efnavopn voru þróuð og notuð af báðum fylkingum á vesturvígstöðvunum allt fram að stríðslokum.

Millistríðsárin

[breyta | breyta frumkóða]

Þó að almenningsálitið í mörgum löndum væri mjög andsnúið notkun efnavopna eftir fyrri heimsstyrjöldina var slíkum vopnum víða beitt á árunum rétt eftir stríð. Bretar beittu þeim í rússnesku borgarastyrjöldinni og gegn uppreisnarmönnum í Írak, sem þá var nýlenda Breta. Sömuleiðis beittu Spánverjar þeim gegn uppreisnarmönnum í Marokkó, sem á þeim tíma tilheyrði Spáni. Árið 1925 komu flestar vestrænar þjóðir sér saman um að banna notkun efnavopna eftir reynslu fyrri heimsstyrjaldarinnar. Almenningsálitið víða um lönd hafði mikið að segja um að knýja ríkisstjórnir margra landa til að sætta sig við þetta.

Efnavopn í seinni heimsstyrjöld

[breyta | breyta frumkóða]

Í seinni heimsstyrjöldinni stóðu flest ríki við skuldbindingar sínar frá 1925 um að beita ekki efnavopnum. Í Evrópu var þeim ekki beitt af ráði en Japanir beittu þeim lítils háttar gegn Kínverjum. Við innrás Þjóðverja í Pólland 1939 nefndi Hitler í frægri ræðu sinni, þar sem hann kunngjörði að stríð væri skollið á milli Þjóðverja og Pólverja, að ef Pólverjar myndi beita efnavopnum yrði þeim svarað í sömu mynt. Segja má að það hafi slegið tóninn fyrir stríðið hvað efnavopn varðar, því öll stórveldin stóðu fyrir mikilli framleiðslu efnavopna á stríðsárunum, til þess að geta svarað fyrir sig ef á þau yrði ráðist með efnavopnum en ekkert þeirra beitti þeim af ráði.

Eftir seinni heimsstyrjöldina

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir seinni heimstyrjöldina hefur efnavopnum oft verið beitt. Egyptar munu hafa beitt þeim í Jemen. Bandaríkjamenn stunduðu í Víetnamstríðinu umfangsmiklar árásir á Norður-Víetnam til að drepa trén í skógum landsins og hrísgrjónaplöntur á ökrum til að eyða því skjóli, sem skæruliðar höfðu í skógunum og til að skera undan matvælaframleiðslu landsins til að knýja það til uppgjafar. Helsta efnið sem var notað var 2,4,5-tríklóró-fenoxyediksýrubútylester, hið svokallaða Agent Orange. En það er mjög umdeilt hvort slík vopn sem beinast gegn plöntum teljist til efnavopna. Í stríði Íraks og Írans beittu Írakar efnavopnum í meira mæli en tíðkast hefur síðan í fyrri heimsstyrjöldinni, fyrst of fremst sinnepsgasi. Sérstaklega þekkt er árás íraska hersins á kúrdíska þorpið Halabdscha 1988, þar sem sinnepsgas var notað.