Fara í innihald

Eftirlitsstofnun EFTA

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá EFTA Surveillance Authority)

Eftirlitsstofnun EFTA (ESE eða ESA eftir ensku nafni stofnunarinnar EFTA Surveillance Authority) er stofnun á vegum Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) sem staðsett er í Brussel í Belgíu og hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd samningsins um evrópska efnahagssvæðið (EES) og tryggja fullnustu EFTA-ríkjanna á honum. Aðild að stofnuninni eiga nú þau þrjú EFTA-ríki sem sem jafnframt eru aðila að EES, Ísland, Liechtenstein og Noregur.

Stofnuninni var komið á með sérstökum samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.[1] Í eftirlitsstofnuninni sitja þrír eftirlitsfulltrúar, einn frá hverju aðildarríki. Eftirlitsfulltrúunum er þó ekki ætlað að gæta sérstaklega hagsmuna heimaríkja sinna heldur ber þeim að vera algjörlega óháðir við sín störf og taka ekki við fyrirmælum frá ríkisstjórnum eða öðrum aðilum. Hlutverk stofnunarinnar er hliðstætt eftirlitshlutverki Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gagnvart Evrópusambandsríkjum og hefur stofnunin því talsverða samvinnu við framkvæmdastjórnina.[1]

Úrræði stofnunarinnar til þess að bregðast við því sem hún telur vera brot á skyldum aðildarríkjanna samkvæmt EES-samningnum er að höfða mál fyrir EFTA-dómstólnum.

Heimildaskrá

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Stefán Már Stefánsson. Evrópusambandið og evrópska efnahagssvæðið. Reykjavík, Bókaútgáfa Orators, 2000, bls. 275-277. ISBN 9979825243.