Fara í innihald

Dictionary of the Older Scottish Tongue

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Dictionary of the Older Scottish Tongue – (skammstafað: DOST) – er orðabók í 12 bindum sem gerir grein fyrir og lýsir skosku sem sérstöku tungumáli, frá fyrstu ritheimild á 12. öld fram til ársins 1700. Vinna við orðabókina tók u.þ.b. 80 ár, frá 1921–2002.

Ágrip af sögu orðabókarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Þó að fyrstu ritheimildir um skosku séu frá 12. öld, eru heimildir mjög takmarkaðar framan af. Samfelldar heimildir um málið eru til frá 1375. Fræðimenn telja að ákveðin skil hafi orðið í sögu málsins um 1700, þegar áhrif frá ensku höfðu leitt til verulegrar samræmingar í málnotkun milli Skotlands og Englands.

Sir William A. Craigie átti frumkvæði að orðabókinni, og kynnti fyrstu hugmyndir um hana í bréfi 1916 og í fyrirlestri 1919. Árið 1921 fór hann svo að vinna skipulega að orðabókinni í frístundum sínum. Hópur sjálfboðaliða var fenginn til að orðtaka valin rit, og munaði þar mest um mágkonu Craigies, Isabellu B. Hutchen, sem hafði umsjón með starfi sjálfboðaliðanna. Sir William Craigie dvaldist í Chicago 1925–1936 og samdi þá við Chicago háskóla (Chicago University Press) um útgáfu á verkinu. I. bindi kom út á árunum 1931–1937 og II. bindi 1938–1951. Þá lá við að verkið stöðvaðist vegna fjárhagserfiðleika bandaríska útgefandans, sem sagði sig frá verkinu. Tókst William Craigie þá að fá nokkra skoska háskóla til að taka við verkefninu, sem tryggði framhald þess. William Craigie vann að orðabókinni til 88 ára aldurs, 1955, og hafði þá lokið bókstafnum I.

Árið 1948 kom Adam Jack Aitken (1921–1998) Craigie til aðstoðar og tók við sem ritstjóri 1955. Hann víkkaði verkefnið út og lét orðtaka mun fleiri rit til þess að orðabókinn yrði sem mest tæmandi fram til 1600. Á árabilinu 1600–1700 eru heimildir orðnar svo viðamiklar að styðjast þarf við valin dæmi. Aitken var ritstjóri til 1983 og starfaði við orðabókina til 1986. Næstu ritstjórar voru:

  • 1983–1985: James A. C. Stevenson.
  • 1985–2001: Henry D. Watson.
  • 1988–2001: Margaret G. Dareau.

Um 1981 lá við að orðabókin strandaði enn vegna fjárhagserfiðleika, en Alexander Fenton yfirmaður Skoska þjóðminjasafnsins í Edinborg gekkst þá fyrir því að stofnuð voru samtök hollvina orðabókarinnar, sem tryggðu að henni yrði lokið. Það tókst í desember 2000, þegar því síðasta var skilað í prentsmiðju, og kom 12. bindið út 2002. Í útgáfustarfinu var yfirleitt sleppt orðum sem eru sem næst eins í ensku og skosku. Hins vegar innleiddi Margaret G. Dareau það sjónarmið í orðabókarvinnuna að einnig þurfi að taka tillit til þess hvort orðin voru notuð á annan hátt í skosku málsamfélagi.

Verklokum við orðabókina var fagnað með því að gefa út ritgerðasafn: Christian J. Kay (ritstj.): Perspectives on the Older Scottish Tongue, Edinburgh 2005, 240 s.

Árið 2004 tók hópur fólks á vegum Háskólans í Dundee að sér að tölvuskrá texta allra 12 bindanna og er hann nú aðgengilegur á netinu undir nafninu Dictionary of the Scots Language.