David Bergey

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

David Hendricks Bergey (f. 27. desember 1860 í Skippack í Pennsylvaníu; d. 5. september 1937 í Fíladelfíu) var bandarískur læknir og örverufræðingur. Hann var þekktastur fyrir rannsóknir tengdar tegundagreiningu og flokkunarfræði baktería og fyrir að ritstýra fyrstu útgáfu uppsláttarritsins Bergey's Manual of Determinative Bacteriology.

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Að loknu læknanámi við Pennsylvaníuháskóla starfaði David Bergey um nokkurt skeið sem læknir í smábænum North Wales, skammt utan við Fíladelfíu, en 1893 hóf hann störf á rannsóknastofu í sýklafræði við Pennsylvaníuháskóla. Hann hlaut lektorsstöðu 1903 og hóf þá kennslu í bakteríufræðum við skólann. Hann varð prófessor 1926. Bergey hafði vítt áhugasvið og snerust rannsóknir hans um meðal annars um berkla, rotvarnarefni fyrir matvæli, agnaát frumna og ofnæmi. Auk kennslu og rannsókna var Bergey virkur í fræðasamfélaginu og var forseti bandaríska örverufræðafélagsins um skeið.

Bergey's Manual[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1923 kom í fyrsta sinn út uppsláttarritið Manual of Determinative Bacteriology og var Bergey aðalritstjóri þess, en í því voru teknar saman á kerfisbundinn hátt flokkunarfræðilegar upplýsingar um þekktar bakteríutegundir til að auðvelda tegundagreiningu óþekktra baktería. Ritið hlaut góðar móttökur hefur síðan komið út í átta útgáfum til viðbótar, undir nafninu Bergey's Manual of Determinative Bacteriology. Auk þess hafa litið dagsins ljós tvær útgáfur af Bergey's Manual of Systematic Bacteriology, en það er enn ítarlegra verk með flokkunarfræðilega, fremur en hagnýta, áherslu. Það er til marks um þau áhrif sem Bergey og „handbækur“ hans hafa haft á samfélag örverufræðinga, að Handbókarsjóður Bergeys (Bergey's Manual Trust) veitir eftirsótt verðlaun (Bergey Award) til örverufræðinga sem lagt hafa af mörkum mikilvægt framlag til flokkunarfræði örvera, og orðu (Bergey Medal) til örverufræðinga sem helgað hafa farsælan feril rannsóknum á flokkunarfræði örvera.

Helstu ritverk[breyta | breyta frumkóða]

  • Handbook of Practical Hygiene. The Chemical Publishing Company, Eaton 1899
  • Principles of Hygiene. A practical manual for students, physicians, and health-officers. WB Saunders, Philadelphia 1901
  • Manual of Determinative Bacteriology. Williams & Wilkins Company, Baltimore 1923

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]