Fara í innihald

Compton's Cafeteria-uppþotin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Compton‘s cafeteria-uppotin vísar til óeirða sem urðu í Tenderloin-hverfinu í San Francisco í ágúst 1966. Eru þau einn af hornsteinum hinsegin sögu í Bandaríkjunum. Stonewall-uppþotin í New York 27. júní 1969 eru yfirleitt kölluð upphaf opinberrar mannréttindabaráttu samkynhneigðra í Bandaríkjunum en átökin á Compton‘s cafeteria eru upphaf mannréttindabaráttu trans fólks. Í New York kastaði Marsha P. Johnson fyrsta steininum í uppþotunum á Stonewall en í San Francisco var það dropi sem fyllti mælinn, þegar trans kona skvetti úr kaffibolla framan í lögregluþjón á Compton‘s.[1]

Tenderloin-hverfið í San Francisco[breyta | breyta frumkóða]

Tenderloin-hverfið var miðpunktur hinsegin lífs borgarinnar. Þar voru samkomustaðirnir, þangað kom fólk víðsvegar að til að skemmta sér og margir bjuggu líka í Tenderloin: samkynhneigðir, tvíkynhneigðir, dragdrottningar og trans fólk. Yfirvöld í San Francisco kölluðu hverfið „a haven for undesirables” - athvarf hinna óæskilegu.[2]

Compton‘s cafeteria, samastaður dragdrottninga og kynlífsverkafólks[breyta | breyta frumkóða]

Compton‘s cafeteria var veitingasala á horni Turk street og Taylor street sem var opin allan sólarhringinn, vinsæll viðkomustaður fyrir þau sem voru úti á lífinu og dýrmætt skjól fyrir kynlífsverkafólk til að hvílast um stund. Dragdrottningarnar stunduðu margar hverjar kynlífsvinnu, sem var hættuleg næturvinna, og bjuggu við stöðuga ógn af hendi viðskiptavina og lögreglu. Þær lágu vel við höggi því klæðskipti[3] (e. cross dressing) voru ólögleg, eins og samkynhneigð, og lögreglan hafði því nægar lagalegar ástæður til að þjarma að hinsegin íbúum og gestum í Tenderloin hverfinu.[4] Slíkar ofsóknir lögreglu höfðu staðið frá því í seinni heimsstyrjöldinni og er þá ótalin hin siðferðislega fordæming samfélagsins sem hópurinn bjó við.[2]

Starfsfólk Compton‘s reyndi ýmislegt til að losna við þessa viðskiptavini sem gerðu lítið annað en að kaupa sér einn kaffibolla og hangsa yfir honum eins lengi og hægt var í bið eftir því að vinkonurnar mættu á staðinn.[5] Þeim var sýnd margvísleg fyrirlitning, jafnvel látnar borga meira en aðrir og þegar allt kom fyrir ekki var hringt á lögregluna, sem taldi ekki eftir sér að koma og taka fast á hinsegin fólkinu. Þannig var sótt að þessum hópi úr öllum áttum.

Heimildamyndin Sqreaming Queens: The Riot at Compton's Cafeteria[breyta | breyta frumkóða]

Talið er að upp undir 100 manns hafi barist við lögreglu eina ágústnótt í San Franciso. Vopnin voru háir hælar og handtöskur, stólar og sykurkör og hver einasti gluggi í kaffiteríunni vinsælu var brotinn í mél.[4] Lítið sem ekkert er til af opinberum heimildum um uppþotið á Compton‘s cafeteria og aldrei hefur tekist að staðfesta nákvæma dagsetningu en árið 1991 fann sagnfræðingurinn og trans konan Susan Stryker fyrir tilviljun frásögn af atburðinum í hinsegin skjalasafninu í San Francisco. Hún fór að leita að frekari gögnum og náði á endanum að hafa upp á og taka viðtöl við nokkrar af konunum sem tóku þátt. Í framhaldinu af þessari rannsóknarvinnu gerðu Susan Stryker og Victor Silverman heimildarmyndina Screaming Queens: The Riot at Compton's Cafeteria árið 2005 og fengu Emmy-verðlaun fyrir.[5][6]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sam Levin (21. júní 2019). „Compton's Cafeteria riot: a historic act of trans resistance, three years before Stonewall“. The Guardian. Sótt 13. desember 2020.
  2. 2,0 2,1 Randy Shaw (16. ágúst 2016). „Honoring SF'S historic GLBT legacy“. Beyond Chron. The Voice of the Rest. Sótt 13. desember 2020.
  3. Auður Magndís Auðardóttir og Íris Ellenberger. „Klæðskipti“. Hinsegin frá Ö til A. Sótt 13. desember 2020.
  4. 4,0 4,1 Rick Paulas (12. maí 2016). „Before Stonewall: The Raucous Trans Riot that History Nearly Forgot“. Vice. Sótt 13. desember 2020.
  5. 5,0 5,1 Susan Stryker og Victor Silverman (2005). „Screaming Queens: The Riot at Compton's Cafeteria“. Sótt 13. desember 2020.
  6. „The Screaming Queens: The Riot at Compton's Cafeteria“. Tenderloin Museum. 16. ágúst 2017. Sótt 13. desember 2020.