Fara í innihald

Checkpoint Charlie

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Checkpoint Charlie í nóvember 1989. Þá var múrinn nýfallinn.
Checkpoint Charlie árið 2005

Checkpoint Charlie var ein þekktasta landamærastöð í Berlín á þeim árum er Berlín var skipt borg. Hún var staðsett í Friedrichstrasse, milli bandaríska og sovéska hernámsvæðanna. Varðstöð þessi var aðeins ein af þremur bandarískum landamærastöðum í og við borgina en þar sem hún var staðsett í miðborginni, var hún þekktust þeirra.

Saga varðstöðvarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Friedrichstrasse í miðborg Berlínar náði frá sovéska hernámshlutanum í miðborginni og inn í bandaríska hlutann þar fyrir sunnan. Þegar Berlínarmúrinn var reistur 1961, var götunni lokað til að byrja með. Fljótt var þó ákveðið að setja upp landamærastöð, þar sem margir diplómatar og yfirmenn herjanna þurfti að komast á milli. Landamærastöðin fékk heitið Checkpoint Charlie, en Charlie stendur fyrir bókstafinn C í alþjóða stafrófinu. Tvær aðrar bandarískar landamærastöðvar voru þegar komnar upp og Checkpoint Charlie var sú þriðja.

Landamærastöðin var í stöðugri notkun frá 1961 til 1990. Almenningi var bannað að nota hana, hún var eingöngu fyrir diplómata og erindreka. Þrátt fyrir það reyndu nokkrir að flýja til vesturs gegnum stöðina. Að minnsta kosti tveir voru skotnir í slíkum tilraunum.

22. júní 1990 var stöðin lögð niður. Þetta var sjö mánuðum eftir fall Berlínarmúrsins og rúmum þremur mánuðum fyrir opinbera sameiningu landanna. Varðskálinn stóð eftir tómur, en var svo fluttur í Mauermuseum (Múrsafnið) aðeins steinsnar frá. Árið 2000 var eftirmynd skálans sett niður á staðinn við Friedrichstrasse þar sem upphaflegi skálinn stóð.