Fara í innihald

Miguel de Cervantes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Cervantes)
Málverk af Cervantes eftir Juan de Jáuregui.

Miguel de Cervantes Saavedra (29. september 154723. apríl 1616) var spænskur rithöfundur, skáld og leikskáld sem er þekktastur fyrir skáldsöguna Don Kíkóta frá Mancha (El ingenioso hidalgo Don Quijote de la Mancha) sem margir telja vera fyrstu nútímaskáldsöguna.

Cervantes lærði eitt ár í Madrid og flutti eftir það til Ítalíu, en áhrif frá ítölskum bókmenntum eru greinileg í verkum hans. Hann barðist í orrustunni við Lepanto 1571, tók þátt í ýmsum öðrum sjóorrustum og þjónaði sem hermaður í Napólí og Palermó. 1575 var skip sem hann var á tekið af sjóræningjum og hann og bróðir hans voru hnepptir í þrældóm í Algeirsborg. Fimm árum síðar var hann leystur út og sneri aftur til Madrid. Á Spáni hélt hann flökkulífi sínu áfram og vann meðal annars sem birgðakaupmaður fyrir flotann ósigrandi og fékkst við skattheimtu. Um tíma var hann bannfærður, varð gjaldþrota og lenti minnst tvisvar sinnum í fangelsi.

Hann hóf feril sinn með því að skrifa leikverk og kvæði en áttaði sig fljótlega á því að hann skorti hæfileika á því sviði. Með Don Kíkóta vildi hann notast við skýrt hversdagsmál til að lýsa raunverulegum aðstæðum og háttum fólks. Fyrsti hlutinn kom út 1605 og aflaði honum strax nokkurs orðspors. Árið 1606 settist hann endanlega að í Madrid. Annar hluti Don Kíkóta kom síðan út 1615.