Byggingarsamvinnufélag Reykjavíkur
Byggingarsamvinnufélag Reykjavíkur var fyrsta íslenska byggingarsamvinnufélagið og stóð fyrir byggingu 47 íbúða í Vesturbæ Reykjavíkur á fjórða áratugnum, flest við Ásvallagötu. Pólitísk andstaða og vanáætlaður byggingarkostnaður gerðu það að verkum að metnaðarfyllstu áform félagsins urðu ekki að veruleika.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Byggingarsamvinnufélag Reykjavíkur árið 1932 á grunni nýsamþykktra laga frá Alþingi um byggingarsamvinnufélög. Lögin höfðu verið samin af frumkvæði fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna í Reykjavík og voru forystumenn flokksins, ásamt fulltrúum Alþýðuflokksmanna áberandi í forystusveit félagsins.
Í fyrstu stjórn áttu sæti þeir Þórður Eyjólfsson (síðar hæstaréttardómari), Eysteinn Jónsson, Stefán Jóhann Stefánsson, Brynjólfur Stefánsson og Fritz Kjartansson. Félagsmenn urðu félagsmenn fljótt um 200 talsins.
Sótt var um lóðir fyrir 120 til 140 hús og var í fyrstu rætt um svæðið þar sem Túnahverfið reis síðar. Bæjarstjórn, þar sem Sjálfstæðismenn voru í meirihluta, hafði ýmislegt við áformin að athuga og var félaginu að lokum úthlutað byggingarlandi fyrir 33 hús á svokölluðu Jóhannstúni eða Séra Jóhannstúni vestan við Hólavallagarð, en það var kennt við Jóhann Þorkelsson dómkirkjuprest.
Þórir Baldvinsson, ungur arkitekt og Axel Sveinsson verkfræðingur voru fengnir til að teikna húsin og voru þau í einkennandi Funkisstíl, einkum einbýlishúsin. Teiknuð voru 27 einbýlishús, átta tvíbýlishús og eitt fjórbýlishús - samtals 47 íbúðir.
Á undirbúningstímanum kom til deilna við bæjaryfirvöld þar sem félagið gerði ráð fyrir að stór hluti bygginganna yrðu timburhús. Bygging slíkra húsa hafði í orði kveðnu verið bönnuð í bænum frá Reykjavíkurbrunanum 1915 en þó höfðu ýmsar undantekningar verið veittar frá því banni. Stjórn Reykjavíkurbæjar gerði í fyrstu kröfu um að öll húsin yrðu steinsteypt en meirihlutinn klofnaði þegar Sjálfstæðismaðurinn Jakob Möller komst að þeirri niðurstöðu að ósanngjarnt væri að líta fram hjá fordæmum í málinu.
Byggingarkostnaður Samvinnufélagshúsanna, sem svo voru kölluð, reyndist meiri en til stóð ekki hvað síst vegna mikils votlendis og erfiðs lóðafrágangs. Fyrir vikið urðu húsin ekki sú lausn á húsnæðisvanda láglaunafólks sem vonir stóðu til, heldur reyndust íbúarnir flestir úr efri millistétt, s.s. forstöðumenn ríkisstofnanna.
Meðal kunnra íbúa á upphafsárum hverfisins má nefna stjórnarmennina Eystein og Stefán Jóhann, Guðbrand Magnússon forstjóra Áfengisverslunar ríkisins, Steingrím Steinþórsson búnaðarmálastjóra og síðar forsætisráðherra, Barða Guðmundsson þjóðskjalavörð, Guðlaug Rósinkranz síðar Þjóðleikhússtjóra og verkfræðinginn Finnboga Rút Þorvaldsson, föður Vigdísar Finnbogadóttur sem ólst upp í hverfinu.