Bryndís Benediktsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Bryndís Benediktsdóttir

Fædd 1951
Starf/staða Prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands

Bryndís Benediktsdóttir (f. 1951)[1] er prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands.

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

Bryndís lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1971 og hóf það ár nám í læknisfræði við Háskóla Íslands. Hún lauk kandidatsprófi þaðan 1977 og stundaði framhaldsnám í heimilislækningum og lyflækningum á árunum 1979 til 1987 í Uppsölum í Svíþjóð. Hlaut sérfræðiréttindi í heimilislækningum í Svíþjóð 1984,[2] á Íslandi 1987 og evrópsk sérfræðiréttindi í Sleep Medicine 2009.

Í júní 1987 hóf Bryndís störf sem sérfræðingur í heimilislækningum við Heilsugæsluna í Garðabæ[2] og starfaði þar til ársins 2019.

Bryndís var ein af stofnendum Hins íslenska svefnrannsóknarfélags[3] árið 1988. Á árunum 1997 til 1999 vann hún á svefnrannsóknarstofu geðdeildar, Landspítalanum við Hringbraut. Ráðgefandi sérfræðingur við Scan-Sleep svefnrannsóknarstofnun í Kaupmannahöfn á árunum 2002-12. Frá árinu 2004 til dagsins í dag hefur Bryndís starfað við svefnrannsóknir á svefndeild Landspítala í Fossvogi. Bryndís hóf störf við læknadeild Háskóla Íslands sem stundakennari 1987, fastráðin frá árinu 1991 fyrst sem lektor, dósent 2005 og skipuð prófessor árið 2013.[4]

Hún tók þátt í að innleiða, móta og efla kennslu í samskiptum læknis og sjúklings við Læknadeild HÍ, en það hafði ekki verið þáttur í námi læknanema þegar hún hóf störf. Mótunarferlið var unnið í samstarfi við læknaskóla á Norðurlöndum, Bandaríkjunum og víðar. Hún byggði upp kennsluna sem hefur fengið vaxandi vægi og hlutdeild í læknanáminu. Námið felur í sér að kenna og þjálfa samskipti læknis og sjúklings, siðfræði, sálfræði og lög sem lúta að læknisstarfinu. Lögð er áhersla á fagmennsku, mannvirðingu og manngæsku í starfi læknis og að gengið sé út frá sjónarhorni sjúklings við að leysa vanda hans, í stað þess að einblína einöngu á sjúkdómsgreiningar. Samstarf við hugvísindasvið HÍ var komið á (Íslensku- og menningardeild) og fagurbókmenntir notaðar við kennslu til að efla skilning og samlíðan í samskiptum læknis og sjúklings og siðfræðikennsla efld til mikilla muna.[5][6]

Ýmis störf og verkefni[breyta | breyta frumkóða]

Á starfsárum sínum gegndi Bryndís trúnaðarstörfum á vegum Háskóla Íslands. Hún sat í deildarráði læknadeildar á árunum 2004-09[7] og seinna sem varamaður. Á árunum 1998 -2005 var hún fulltrúi HÍ í Nordic Network for Education in Medical Communication og formaður ráðsins 2003.[8] Formaður jafnréttisnefndar læknadeildar 2006-09, í jafnréttisnefnd Heilbrigðisvísindasviðs 2009-12 og í stjórn Rannóknastofu í kvenna - og kynjafræðum, RIKK 2009-10. Hún var fulltrúi HÍ í nefnd um tæknifrjóvgun skipuð af heilbrigðisráðneyti og í stöðunefnd lækna á vegum heilbrigðisráðuneytis frá árinu 2005.[9]

Bryndís sat í ritstjórn Læknablaðsins 2007-11[10] og The Scandinavian Journal of Primary Health care 1994-2005.

Rannsóknir[breyta | breyta frumkóða]

Bryndís hefur verið afkastamikill vísindamaður og hafa rannsóknir hennar beinst fyrst og fremst að svefni og svefnsjúkdómum, en einnig áhrifum erfða og umhverfis á heilsu.[11][12] Stór hluti þeirra hafa verið unnar í alþjóðlegri samvinnu, einkum við rannsakendur á Norðurlöndum og við PENN háskólann, Philadelphiu, BNA. Hún hefur verið rannsakandi og verkefnisstjóri í fjölþjóðlegum rannsóknarverkefnunum: BOLD,[13] SAGIC,[14] RHINE,[15] RHINESSA[16] og ECRHS.[17] Niðurstöður rannsókna hennar hafa verið birtar í virtum erlendum ritrýndum læknatímaritum, en einnig í Læknablaðinu.[11][12] Hún hefur haldið fjölda fyrirlestra[18][19][20] og birt veggspjöld á alþjóðlegum og innlendum ráðstefnum.

Viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Hún hefur hlotið verðlaun fyrir rannsóknir á svefni. Hún hlaut Astra award for sleep research in Primary care árið 2000 og The Wayne Hening Investor Award[21] á veitt af American Academy of Sleep Medicine and Sleep Research Society 2012.

Einkalíf[breyta | breyta frumkóða]

Bryndís er gift Þórarni Gíslasyni prófessor og yfirlækni og eiga þau fjögur börn.[2][22]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Árbók Háskóla Íslands. Háskólaárið 2008 (bls. 323). Sótt 7. september 2019.
 2. 2,0 2,1 2,2 „Morgunblaðið. (1997, 22. október). Margar konur fá svefntruflanir við tíðahvörf“. Sótt 7. september 2019.
 3. Hið íslenska svefnrannsóknarfélag. Sótt 7. september 2019.
 4. Háskóli Íslands. Háskólaráðsfundur 5. desember 2013.Framgangur akademískra starfsmanna Háskóla Íslands 2013. Sótt 7. september 2019.
 5. Læknablaðið. (2008). Læknavísindin eru hluti af læknalistinni. Viðtal við Bryndísi Benediktsdóttur. Læknablaðið, 94(5). Sótt 7. september 2019.
 6. Háskóli Íslands. Læknis- og bókmenntafræði hönd í hönd. Ásdís Egilsdóttir og Dagný Kristjánsdóttir, prófessorar við Íslensku- og menningardeild, og Bryndís Benediktsdóttir, prófessor við Læknadeild. Sótt 7. september 2019.
 7. Árbók Háskóla Íslands. Háskólaárið 2005 (bls. 140). Sótt 7. september 2019.
 8. Læknablaðið. (2008). Læknavísindin eru hluti af læknalistinni. Viðtal við Bryndísi Benediktsdóttur. Læknablaðið, 94(5). Sótt 7. september 2019.
 9. Embætti landlæknis. (2014). Stöðunefndir. Sótt 7. september 2019.
 10. Engilbert Sigurðsson. (2011). Vegferð Læknablaðsins og ógnir við velferð sjúklinga. Læknablaðið, 97(9). Sótt 7. september 2019.
 11. 11,0 11,1 „Google Scholar. Bryndís Benediktsdótir“. Sótt 7. september 2019.
 12. 12,0 12,1 „PubMed. Bryndís Benediktsdóttir. Greinar sl. 10 ár“. Sótt 7. september 2019.
 13. BOLD. Burden of Obstructive Lung Disease. Sótt 7. september 2019.
 14. Center for Sleep and Circadian Neurobiology. Sleep Apnea Global Interdisciplinary Consortium. Sótt 7. september 2019.
 15. RHINE. Respiratory health in Northern Europe. Sótt 7. september 2019.
 16. Helse Bergen. Haukeland universitetsjukehus. RHINESSA Ísland. Sótt 7. september 2019.
 17. ECRHS. European Community Respiratory Health Survey. Sótt 7. september 2019.
 18. Hið íslenska svefnrannsóknafélag. Svefnráðleggingar. Nokkur einföld ráð til að bæta svefn – Bryndís Benediktsdóttir læknir. Sótt 7. september 2019.
 19. Stefán Árni Pálsson. (2015, 29. apríl). Þjáist af svefntruflunum: Kýlir og sparkar í konuna sína á nóttunni. Vísir.is. Sótt 7. september 2019.
 20. Dagur-Tíminn. (1996, 2. nóvember). Syfjaðir unglingar. Sótt 7. september 2019.
 21. Irlssg. Wayne Hening Young Investigator. Past Winners. Sótt 7. september 2019.
 22. Læknablaðið. (2010). Kæfisvefn taldist varla sjúkdómur. Sótt 7. september 2019.