Brandajól

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Brandajól er það kallað þegar jóladag ber upp á mánudag þannig að margir helgidagar komi í röð. Það er sunnudagur, jóladagur, annar í jólum og áður fyrr þriðji í jólum, sem var helgidagur uns með konungsskipun hann var afhelgaður árið 1770 og þar með ekki lengur almennur frídagur, ásamt þrettándanum og þriðja í Hvítasunnu sem dæmi.

Fyrir árið 1770 var þríheilagt á jólum þar sem þriðji í jólum var helgidagur. Þegar jóladag bar upp á mánudag, urðu því fjórir helgidagar í röð, að meðtöldum sunnudeginum sem var helgidagur, og þá kallað fjórheilagt.

Við það að jóladag beri upp á mánudag lagðist nýársdagur einnig upp að sunnudegi svo úr urðu tveir helgir samliggjandi dagar. Eins lendir þrettándinn á laugardegi en þar sem laugardagur var áður fyrr almennur vinnudagur en þrettándann helgur dagur fyrir 1770 þá urðu einnig úr því tveir samliggjandi helgir dagar.

Heimildir um stóru og litlu brandajól[breyta | breyta frumkóða]

Stundum er talað um stóru eða meiri brandajól og litlu eða minni brandajól en mönnum hefur greint á um hvernig þau eigi að skilgreinast. Elsta heimild um brandajól mun vera minnisblað sem Árni Magnússon ritaði, líklega í byrjun 18. aldar. Þar segir hann að brandajól kallist það þegar jóladag ber upp á mánudag.

Stuttu seinna ritaði Jón Ólafsson frá Grunnavík í orðabók sem hann ritaði á latínu að brandajól heiti það þegar fjórir helgidagar fari saman. Hann gerir aftur á móti greinarmun á því sem hann kallar brandajól meiri (sem sennilega er það sama og stóru brandajól), ef fyrsti jóladagur leggst upp að sunnudegi en brandajól minni ef sunnudagurinn fari á eftir þriðja degi jóla. Þetta ritaði hann líklega um miðja 18. öld. En skýringin er sennilega sú að ef jóladagur er á fimmtudegi verður fjórheilagt á jólum, en nýjársdagur lendir jafnframt á fimmtudegi og því ekki samliggjandi öðrum helgum degi og það sama gilti um þrettándann. Telja má þetta sennilega og eðlilega skýringu og túlkun á þessum tvem hugtökum, meiri og minni brandajólum.

Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal samdi á árunum 1770-1785 íslensk-latnesk-danska orðabók og þar segir hann að brandajól séu þegar dagurinn fyrir fyrsta jóladag eða dagurinn eftir þriðja í jólum sé sunnudagur. Er hann þar samhljóma Grunnavíkur-Jóni, nema hvað Björn minnist hvorki á stóru né litlu brandajól sennilega vegna þess að hann skrifar bókina eftir að þriðji í jólum hafði verið feldur niður sem hátíðisdagur.

Eiríkur Jónsson vitnar í þessa heimild í orðabók sinni, Oldnordisk Ordbog árið 1863. Hann bætir við að frekar séu það brandajól ef jóladagur sé föstudagur eða mánudagur og þar virðist hann vera að taka tillit til þess að þriðji í jólum er ekki lengur helgidagur og breytir skilgreiningunni út frá því.

Jón Sigurðsson skrifaði grein um almanak, árstíðir og merkidaga í Almanak Þjóðvinafélagsins árið 1878 og hefur þar eftir Árna Magnússyni að menn hafi kallað það brandajól þegar jóladag bar upp á mánudag. Hann nefnir einnig að sérstök helgi hafi áður fyrr verið á áttadegi jóla (nýjársdag) og þrettándanum og hafi þær helgar báðar lengst um einn dag á brandajólum. Á áðurnefndu minnisblaði Árna Magnússonar minnist hann einnig, með óbeinum hætti þó, á þessa lengingu þessarra tveggja helga til viðbótar við jólahelgina.

Séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili skrifaði einnig um brandajól snemma á 20. öld og notast við skýringuna um að fyrir 1770 hafi það heitið brandajól þegar fjórheilagt varð, hvort sem það bar þannig til að jóladagur féll á mánudag eða fimmtudag. Jónas vísar hvergi í heimildir en í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals, útgefinni 1924, gefur Sigfús sömu skýringu og hefur það eftir orðabók Björns í Sauðlauksdal.

Þessar heimildir sína að ekki hafa allir lagt sömu merkinguna í orðið brandajól, einkum þó hvað væru stóru brandajól eða litlu brandajól. Samkvæmt ofanrituðum heimildum virðast brandajól upphaflega einungis merkt það þegar jóladag bar upp á mánudag. Seinna hafi verið farið að kalla það litlu eða minni brandajól þegar sunnudagur fylgdi á eftir jólahelginni því þau lengdu ekki helgarnar um nýár eða þrettánda eftir að hætt var að halda þrettándann og þriðja í jólum heilagan árið 1770. Virðast menn því frekar hafa horft til þess hvað gæfi lengsta jólahelgi og þar með frídaga.

Það sem ruglar fólk einna helst við það að meta hvað séu stór eða lítil brandajól er breytingin sem átti sér stað árið 1770 þegar þriðji í jólum og þrettándinn voru afhelgaðir af danakonungi. Þar með varð í sumum skýringum endaskipti á því hvort væri hvað og það sem upphaflega voru kölluð stóru eða meiri brandajól voru nú orðin hin minni eða litlu brandajól og öfugt.

Stóru brandajól í dag[breyta | breyta frumkóða]

Eins og vinnu-og hátíðarlöggjöf er háttað á Íslandi í dag er ekki bara mjög takmörkuð helgi á sunnudögum og eins er á aðfangadag almennur vinnudagur til hádegis og takmörkuð helgi fram til klukkan sex en þá tekur við helgi sem varir þó aðeins samfelt út jóladag en um annan í jólum gilda lög líkt og um sunnudaga. Sama á við um gamlársdag og aðfangadag að hann er almennur vinnudagur til hádegis og takmörkuð helgi á honum til klukkan sex og aðeins helgi til klukkan tólf á miðnætti. Heldur meiri er helgin yfir nýjársdag en almennan sunnudag. Því væri eðlilegast ef bara er horft til þess hversu mikið frí fólk fær út úr jólunum að kalla stóru brandajól það þegar jóladag ber upp á sunnudag. Þá væri almennur frídagur á aðfangadag og því frí fyrir hádegi á laugardag og eins á gamlársdag sem lenti á sunnudegi. Úr þessu fengi fólk almennt þrjá heila og samfellda frídaga á jólum og einn auka frídag um áramót, það er nýjársdag sem lendir þá á mánudegi. Því mætti kalla samkvæmt þessu það sóru brandajól þegar þannig hagar til að jóladagur lendir á sunnudag.

Þó verður að taka það með í reikninginn bæði hversu margir vinna vaktavinnu, eins að margir eiga frí alla laugar-og sunnudaga og hversu almennt það er orðið að gefa frí fyrir hádegi á aðfanga-og gamlársdag. Því verður fyrir þá sem eiga almennt frí um helgar plús að vinna ekki fyrir hádegi á aðfanga-og gamlársdag, það flestir frídagar þegar jóladagur lendir á þriðjudegi. Það er fimm frídagar um jól og fjórir um áramót.

Önnur heiti á jólum[breyta | breyta frumkóða]

Dæmi um önnur heiti á jólum sem þó eru frekar ný til komin og mest notuð í daglegu tali manna á milli eru til dæmis atvinnurekendajól. En það er þegar aðfangadag ber upp á föstudag og fyrir þá sem vinna til hádegis á aðfangadag en eiga frí um helgar verða slík jól bara hálfur auka frídagur.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • Brandajól; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1958
  • „Hvað eru stóru brandajól?“. Vísindavefurinn. (Skoðað 2.1.2013).