Brönugras

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Brönugrös)
Brönugras
Dactylorhiza maculata subsp. maculata
Dactylorhiza maculata subsp. maculata
Vísindaleg flokkun
Ríki: Jurtaríki (Plantae)
Undirríki: Kímplöntur (Embryophyta)
Fylking: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Einkímblöðungar (Liliopsida)
Ættbálkur: Laukabálkur (Asparagales)
Ætt: Brönugrasaætt (Orchidaceae)
Undirætt: Orchidoideae
Ættkvísl: Dactylorhiza
Tegund:
D. maculata

Tvínefni
Dactylorhiza maculata
(L.) Soó (1962)
Samheiti
  • Orchis maculata L. (1753) (Basionym)
  • Dactylorchis maculata (L.) Verm. (1947)
  • Orchis cornubiensis

Brönugras (fræðiheiti Dactylorhiza maculata) er ein tegund orkídea, jurt af brönugrasaætt. Í Hálfdánarsögu Brönufóstra er sagt frá því að tröllkonan Brana hafi gefið fóstra sínum brönugrösin til þess að vekja ástir konungsdóttur og talið að þaðan sé íslenska heitið komið.

Útbreiðsla[breyta | breyta frumkóða]

Brönugras er algengt um alla Evrópu utan Balkanskaga og einnig í Norður-Asíu. Jurtin kýs einkum sólríka staði á láglendi eða utan í hæðum en einnig finnst hún í röku votlendi sem og þurrum skógarbotnum og lækjarbökkum. Brönugras hefur fundist allt upp í 2,200 metra hæð.

Almennt[breyta | breyta frumkóða]

Blaðhlutaskipting brönugrassins

Brönugras verður að jafnaði milli 15 til 45 sm. á hæð en stærst hefur það fundist 70 sm. á hæð. Þetta er fjölær laukjurt og kemur nýr stöngull upp á hverju ári. Stöngullinn er beinn og uppréttur og mynda blómin klasa mörg saman efst á honum. Blöðin eru ílöng eða sporöskjulaga með dökkum sporöskjulaga blettum á yfirborði.

Þjóðtrú[breyta | breyta frumkóða]

Til eru þjóðsögur um áhrifamátt Brönugrassins. Það átti að tína jurtina á Jónsmessunótt nærri fjörum. Mikill kraftur átti að vera í rótinni og því þurfti að gæta vel að því að ná henni heilli upp úr jörðinni. Hún er tvískipt og átti þykkari endi hennar að örva kvensemi og líkamlegan löst en þunni endinn aftur á móti að efla hreinlífi. Þannig var talið að hún gæti aukið losta og ástir milli karla og kvenna en eins stillt ósamlyndi hjóna ef þau svæfu á henni. Enda var Brönugras einnig kallað hjónagras, hjónarót, elskugras, Friggjargras, graðrót og vinagras. Til að ná ástum einhvers skyldi lauma öðrum enda rótarinnar undir kodda viðkomandi. Sá hinn sami var síðan látinn sofa með rótina undir höfðinu en sjálfir eiga menn að sofa með hinn helminginn. [1]

Um brönugras ritaði Björn Halldórsson í Sauðlauksdal árið 1781:

„Þessi urt hefir mjög kraft til að styrkja bæði karla og konur til barnlagnaðar, helst rót hennar sem eykur fjör manna, varðveitir hafnir kvenna, og styrkir til fæðingar í hæfan tíma. Urtin er ilmandi, helst um nætur.“

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Árni Björnsson (2000). Saga daganna.
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
Wikilífverur eru með efni sem tengist