Boethíus
Vestræn heimspeki Fornaldarheimspeki | |
---|---|
Nafn: | Anicíus Manlíus Severinus Boethíus |
Fæddur: | 480 |
Látinn: | 524 eða 525 |
Skóli/hefð: | Platonismi, kristni |
Helstu ritverk: | Hugfró heimspekinnar |
Helstu viðfangsefni: | Siðfræði |
Áhrifavaldar: | Platon, Aristóteles |
Anicíus Manlíus Severinus Boethíus (480-524 eða 525) var kristinn heimspekingur á sjöttu öld. Hann var fæddur í Róm í valdamikla fjölskyldu sem innihélt meðal annars Olybrius keisara. Hann komst í háar stöður innan hirða austgotneska konungdæmisins á Appenínaskaga. Á endanum var hann þó tekinn af lífi í kjölfar þess að vera sakaður um að vinna með Býsansmönnum. Ævistarf Boethíusar var að varðveita klassíska þekkingu, einkum á sviði heimspeki. Hann ætlaði meðal annars að þýða öll verk Aristótelesar og Platons úr grísku á latínu. Þýðingarnar sem hann kláraði á ritum Aristótelesar um rökfræði voru einu rit Aristótelesar fáanleg í Evrópu fram að 12. öld. Þessar þýðingar voru, auk þýðingar hans á Inngangi Porfýríosar að Kvíunum eftir Aristóteles og hans eigin skýringarrita við rökfræðirit Aristótelesar, meginuppistaðan í rökfræðimenntun og kjarninn í allri æðri menntun á miðöldum. Þar að auki skrifaði hann sjálfur rit á sviði heimspeki, guðfræði, stærðfræði og tónfræði. Rit hans Hugfró heimspekinnar var eitt áhrifamesta rit miðalda og var oftar þýtt yfir á þjóðtungurnar en nokkurt annað rit að Biblíunni undanskilinni.