Blade Runner

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stigahús Bradbury-byggingarinnar í Los Angeles var notað í myndinni.

Blade Runner er vísindaskáldsögumynd eftir Ridley Scott frá 1982, með Harrison Ford, Rutger Hauer, Sean Young og Edward James Olmos í aðalhlutverkum. Myndin byggist lauslega á skáldsögu Philip K. Dick Do Androids Dream of Electric Sheep? frá 1968. Myndin gerist í dystópískri framtíð árið 2019 í Los Angeles, þar sem gervimenni eru framleidd af stórfyrirtækinu Tyrell Corporation með líftækni til að vinna í geimnýlendum. Hópur gervimenna flýr aftur til jarðar og lögreglumaðurinn Rick Deckard (Ford) fær það verkefni að ná þeim og eyða þeim.

Blade Runner gekk illa í byrjun og var gagnrýnd fyrir hæga framvindu og skort á spennu. Hún varð síðar költmynd og er nú álitin ein af bestu vísindaskáldsagnamyndum allra tíma og eitt besta dæmið um ný-noir-mynd. Tónlistin í myndinni, eftir Vangelis, var tilnefnd til BAFTA-verðlauna og Golden Globe-verðlauna.

Kvikmyndin hafði mikil áhrif á aðrar vísindaskáldsögumyndir, bókmenntir, tölvuleiki og teiknimyndir. Hún vakti athygli á verkum Philip K. Dick og síðan hafa verið gerðar fleiri myndir eftir bókum hans, eins og Total Recall (1990), Minority Report (2002) og A Scanner Darkly (2006). Árið 2017 kom út framhaldsmyndin Blade Runner 2049 eftir Denis Villeneuve.

  Þessi kvikmyndagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.