Blöndugil

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Blöndugil er um 18 km langt gil eða gljúfur sem Blanda hefur grafið þar sem hún fellur ofan af heiðum ofan í Blöndudal. Gilið skilur á milli Auðkúluheiðar og Eyvindarstaðaheiðar.

Blöndugil er víða 50–100 m djúpt, sums staðar með standbjörgum og gróðurblettum. Einna hrikalegast er það hjá svonefndum Tindabjörgum, þar sem það er um 150–200 m djúpt. Gróður er víða mikill í gilinu á klettasillum og í hvömmum, og nálægt svonefndum Hosugeira er skógartorfa sem illfært er í. Grettishlaup er í gilinu, þar eru aðeins um 20 m á milli hamrabrúna. Við norðanvert Blöndugil er þvergil, Vallgil, sem gengur til vesturs.

Blöndugil er skammt frá Kjalvegi og er einna styst að suðurhluta þess sunnan við vatnið Galtaból. Gilið er í Húnavatnshreppi í Austur-Húnavatnssýslu, en áður var það á mörkum tveggja hreppa sem hafa sameinast.

Blöndugil er á náttúruminjaskrá, ásamt Vallgili og Rugludal (svæði 412).

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson: Landið þitt Ísland 1, Rvík, Bókaútgáfan Örn og Örlygur 1984, 93.
  • Náttúruminjaskrá o.fl.