Fara í innihald

Björn austræni Ketilsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Björn austræni Ketilsson var landnámsmaður á Snæfellsnesi, nam land á milli Hraunsfjarðar og Stafár og bjó rausnarbúi í Bjarnarhöfn.

Björn var sonur Ketils flatnefs en móðir hans var Yngvildur, dóttir Ketils veðurs hersis af Hringaríki. Þegar Ketill fór til Suðureyja í erindum Haraldar hárfagra sá Björn um eignir hans í Noregi. Ketill skilaði ekki skatti til konungs og þá rak Haraldur Björn burt og tók eignir þeirra feðga undir sig. Björn fór þá vestur um haf til föður síns en vildi ekki setjast þar að, heldur hélt til Íslands og nam þar land. Hann var sá eini af börnum Ketils sem ekki tók skírn og er hann sagður heygður við Borgarlæk.

Kona Bjarnar var Gjaflaug Kjallaksdóttir. Synir þeirra voru Kjallakur gamli sem bjó í Bjarnarhöfn eftir föður sinn og var föðurafi Víga-Styrs og ættfaðir Kjallekinga, Vilgeir og Óttar. Helgi sonur Óttars herjaði á Skotland og tók að herfangi Niðbjörgu, dóttur Bjólans konungs og Kaðlínar, dóttur Göngu-Hrólfs. Sonur þeirra var Ósvífur spaki Helgason, faðir Guðrúnar Ósvífursdóttur.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  • „Landnáma á snerpa.is“.