Balfour-yfirlýsingin
Balfour-yfirlýsingin frá árinu 1917 var bréf sem Arthur James Balfour, utanríkisráðherra Bretlands, sendi Walter Rothschild, leiðtoga í samfélagi gyðinga í Bretlandi, og fól í sér stuðningsyfirlýsingu við málstað zíonista. Yfirlýsingin er svohljóðandi:
Ríkisstjórn hans hátignar er meðmælt því að í Palestínu verði komið á fót heimalandi Gyðinga, og mun gera sitt ítrasta til að greiða fyrir framkvæmd þessari, enda ljóst að ekkert skuli gert sem standa kann í veginum fyrir borgaralegum eða trúarlegum réttindum þeirra samfélaga sem fyrir búa í Palestínu og ekki heyra til Gyðinga, né heldur réttindum eða pólitískri stöðu Gyðinga í öðrum löndum.[1]
Efni skjalsins var ekki í samræmi við Sykes–Picot-samkomulagið sem Bretar höfðu gert við Frakka, né heldur Hussein–McMahon-samskiptin, en var engu að síður innlimað í stefnu um yfirráð yfir landsvæði Mið-Austurlanda eftir heimsstyrjöldina fyrri.[2]
Afleiðingar Balfour-yfirlýsingarinnar urðu miklar og alvarlegar og sér ekki enn fyrir endann á þeim, enda er hlutur hennar í langvarandi deilu Ísraela og Palestínumanna stór.
Bakgrunnur
[breyta | breyta frumkóða]Tilurð Balfour-yfirlýsingarinnar má rekja til heimspólitíkur á tímum ritunar. Með skjalinu var ætlunin að afla stuðnings gyðinga, einkum í Rússlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi, við málstað Bandamanna í heimsstyrjöldinni fyrri, og um leið tryggja hagsmuni Bretlands í Mið-Austurlöndum að stríði loknu.[3] Ljóst er að Bretar ofmátu áhrifamátt gyðinga í umræddum löndum og mögulega má rekja tildrög yfirlýsingarinnar að einhverju leyti rekja til and-semítískra hugmynda um gyðinga sem dulda áhrifamenn í samfélaginu.
Heimaland Gyðinga eða þjóðríki Gyðinga
[breyta | breyta frumkóða]Balfour-yfirlýsingin var vandlega orðuð og margræð. Hvert orð yfirlýsingarinnar var varlega og vísvitandi valið með það að leiðarljósi að lofa ekki of miklu landsvæði í Palestínu til zíonista né heldur skuldbinda bresku krúnuna um of gagnvart hreyfingunni. Í lagalegum skilningi var orðalagið „heimaland Gyðinga“ merkingarsnautt, ólíkt hugtakinu „þjóðríki“, og því óljóst hvort túlka bæri textann sem stuðningsyfirlýsingu við formlega stofnun þjóðríkis gyðinga eða ekki. Á Mið-Austurlöndum hafa alltaf búið gyðingar, en jafnan verið í minnihluta, og fyrstu áratugina eftir útgáfu yfirlýsingarinnar höfnuðu bæði bresk yfirvöld, auk sumra innan zíonistahreyfingarinnar, því að stofnun sérstaks þjóðríkis stæði til. Þó litu margir svo á að með tíð og tíma yrði ríki stofnað, að því gefnu að gyðingar hefðu flust til svæðisins í nægilegum mæli og náð þar meirihluta. Aðrir, líkt og Chaim Weizmann, litu alltaf svo á að markmið zíonista væri að Palestína yrði „jafn gyðingleg og England væri enskt“ [4].
Fyrstu drög yfirlýsingarinnar fólu ekki í sér neina skuldbindingu til að tryggja réttindi annarra íbúa Palestínu en gyðinga en m.a. fyrir tilstilli Edwin Samuel Montagu, sem var and-zíonískur gyðingur og meðlimur bresku stjórnarinnar, var seinni hlutanum bætt við enda taldi Montagu að annars yrði yfirlýsingin vatn á myllu gyðingahatara um heim allan. Tillögu Frakka um að yfirlýsingin tæki til pólitískra réttinda annarra en gyðinga, auk borgaralegra og trúarlegra réttinda, var hafnað.
Eftirköst
[breyta | breyta frumkóða]Í augum margra Araba var Balfour yfirlýsingin hrein og klár svik en Arabar höfðu margir hverjir barist með Bretum gegn yfirráðum Ottómanveldisins í þeirri von að það myndi leiða til sjálfstæðis þeirra. Arabar sem aðhylltust kristni og íslam lýstu yfir miklum áhyggjum af því að svo virtist sem gyðingar hefðu í hyggju að skapa einsleitt ríki gyðinga og að þar væri ekki gert ráð fyrir öðrum trúarhópum.
Sendinefnd frá Bandalagi múslíma og kristinna, undir forystu Musa al-Husayini, lýsti opinberri vanþóknun sinni þann 3. nóvember 1918, degi eftir skrúðgöngu síonista á ársafmæli Balfour yfirlýsingarinnar. Nefndin skilaði inn undirskriftalista til Ronald Storrs, sem var hæstráðandi Breta á svæðinu:
„Vér höfum ekki komist hjá að verða vitni að stórum hópum gyðinga sem veifa stórum spjöldum og hlaupa um göturnar og hrópa slagorð sem oss svíður undan. Þeir draga ekki dul á það að þeir sjái nú Palestínu sem sitt þjóðarheimili. Þessi sama Palestína er hið heilaga land feðra okkar og grafreitur forfeðra okkar. Öldum saman hafa Arabar búið á þessu landi og vottað því ást sína, jafnvel látið lífið til varnar því... Við Arabar, bæði múslímar og kristnir, höfum alltaf haft samúð með gyðingum vegna ofsókna á hendur þeim í öðrum löndum... En það er stór munur á slíkri samúð og því að samþykkja skilyrðislaust slíkt ríki sem þeir vilja stofna. Ríki sem ætlar sér yfir oss að ráða og skipta sér af okkar málum.“[5]
Bretar hétu því einnig að beita sér fyrir réttindum „annarra hópa en gyðinga“ á svæðinu en á þeim tíma voru gyðingar í miklum minnihluta í Palestínu og rúmlega 85% íbúa -eða tæplega 670.000 manns- voru Arabar.[6]
Áætlanir þeirra hópa sem höfðu hagsmuna að gæta í Palestínu sköruðust verulega. Arabar vildu sitt sjálfstæða ríki, síonistar þráðu ríki Gyðinga og Bretar vildu halda svæðinu sem breskri nýlendu. Reiði kraumaði meðal Araba vegna heimsvaldastefnu Breta og þjóðernisstefnu síonista. Sérstaklega versnaði ástandið eftir valdatöku nasista í Þýsklandi 1933 en þá flúðu gyðingar í þúsundatali frá Evrópu. Um 170.000 gyðingar komu til Palestínu á árunum 1933 til 1936 sem olli miklu uppnámi meðal Araba á svæðinu.[7]
Balfour-yfirlýsingin – með sínu tvíræða orðalagi og mótsögnum - gerði því lítið annað en að valda enn meiri vandræðum og ruglingi sem ekki sér enn fyrir endann á.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ http://www.mfa.gov.il/mfa/foreignpolicy/peace/guide/pages/the%20balfour%20declaration.aspx
- ↑ Cleveland, W. L. og Bunton, M. (2012). A History of the Modern Middle East (5. útgáfa). Boulder: Westview Press.
- ↑ � Harms, G. og Ferry, T. M. (2012). The Palestine-Israel Conflict: A Basic Introduction (3. útgáfa). New York: Palgrave. Bls. 69-70.
- ↑ Weizmann, Chaim. (1983). The Letters and Papers of Chaim Weizmann. Jerusalem: Transaction Books. Bls. 257.
- ↑ � Wasserstein, B. (1991). The British in Palestine: The Mandatory Government and Arab-Jewish Conflict, 1917-1929 (2. útgáfa). Blackwell.
- ↑ � Cleveland, W. L. og Bunton, M. (2012). A History of the Modern Middle East (5. útgáfa). Boulder: Westview Press. Bls. 228.
- ↑ Harms, G. og Ferry, T. M. (2012). The Palestine-Israel Conflict: A Basic Introduction (3. útgáfa). New York: Palgrave. Bls. 69-70. Bls. 235.