Fara í innihald

Hussein–McMahon-samskiptin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sir Henry McMahon
Hússein bin Alí

Hussein-McMahon samskiptin voru bréfasamskipti sem fóru fram á milli Ḥussein Ibn Ali emír af Mekka og Henrys McMahon, sem var æðsti embættismaður Breta í Egyptalandi. Bréfaskiptin áttu sér stað í heimsstyrjöldinni fyrri, frá júlí 1915 fram í mars 1916.[1] Bréfin voru alls tíu talsins og innihélt samskipti þeirra Hussein og McMahons þar sem sá síðarnefndi lofaði meðal annars stuðningi Breta við stofnun sjálfstæðs arabísks konungsveldis þar sem Hussein og fjölskylda hans færu með völdin.[2] Loforð McMahons kom gegn því að Hussein og Hashemítar myndu hefja uppreisn gegn Ottómanaveldinu. Stuðningur Breta fólst meðal annars í því að útvega Aröbum byssur, mat og peninga.[3]

Stór hluti af samskiptum Husseins og McMahons snerust um landamæri hins verðandi sjálfstæða ríkis Araba. Í skrifum sínum lýsti Hussein því svæði sem hann vildi fá mjög nákvæmlega. Það svæði sem hann fór fram á er lýst í bók Magnúsar Þ. Bernharðssonar, Miðausturlönd, á eftirfarandi hátt „allt Sýrland, frá landamærum Egyptalands á Sínaískaga upp að Silesiu í suðurhluta Tyrklands, Írak að landamærum Írans og allan Arabíuskagann fyrir utan Aden, sem var bresk nýlenda.“[4] McMahon svaraði Hussein í bréfi 24. október 1915 þar sem hann staðfesti þetta en vildi þó gera nokkrar undantekningar. Í bréfinu skrifar hann „ekki er hægt að segja að héruðin tvö Mersina og Alexandretta og hlutar Sýrlands sem liggja vestur af héruðum Damaskus, Homs, Hama og Aleppó séu eingöngu arabísk og ætti að útiloka þau mörk sem krafist er.“[5] Þessi ágreiningur var settur til hliðar og átti að leysast síðar. Hussein taldi að Bretar myndu endurskoða afstöðu sína eftir að stríðinu lyki.[6]

Með loforð Breta um sjálfstætt ríki Araba hóf Hussein og liðsmenn hans uppreisn gegn Tyrkjum í júlí 1917. Rúmu ári síðar, í október 1918, náðu þeir takmarki sínu þegar að Damaskus féll. Hussein hafði staðið við sín loforð og þá tók við bið eftir að Bretar efndu sinn hluta samningsins. Það kom í ljós síðar að ekki var allt með felldu. Bretar höfðu gefið loforð í allar áttir um ákveðin landsvæði, meðal annars til Frakka og Síonista, þjóðernishreyfingu gyðinga.[7]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Magnús Þorkell Bernharðsson. Miðausturlönd. bls. 80.
  2. Magnús Þorkell Bernharðsson. Miðausturlönd. bls. 80.
  3. Britannica, T. Editors of Encyclopaedia. (June 8 2020). „Hussein-McMahon correspondence“. Encyclopedia Britannica.
  4. Magnús Þ. Bernharðsson. Miðausturlönd. bls. 81.
  5. „The Hussein-McMahon Correspondence (July 1915-August 1916)“. www.jewishvirtuallibrary.org.
  6. Britannica, T. Editors of Encyclopaedia (júní 2020). „Hussein-McMahon correspondence“. Encyclopedia Britannica.
  7. Magnús Þ. Bernharðsson. Miðausturlönd. bls. 82-83.