Bjargráðasjóður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bjargráðasjóður er sjálfstæð stofnun að jöfnu í sameign ríkisins og Bændasamtaka Íslands, sem hefur það hlutverk að veita einstaklingum og félögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar beint tjón af völdum náttúruhamfara, búfjársjúkdóma, óvenjulegs veðurfars og slysa. Stofnunin er rekin með beinu fjárframlagi frá ríkissjóð og af búnaðargjaldi. Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum nr. 49/2009.

Tekjur sjóðsins skiptast á milli tveggja deilda: Í almenna deild sjóðsins rennur framlag ríkissjóðs svo og vaxtatekjur sjóðsins; Í búnaðardeild sjóðsins renna tekjur af búnaðargjaldi.

Fjárhagsaðstoð Bjargráðasjóðs er fólgin í veitingu styrkja sem stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni í samræmi við fjárhag og stöðu sjóðsins. Stjórn sjóðsins leggur mat á styrkhæfni tjóns, ákveður styrkhlutfall og eigin áhættu tjónþola í tjóni.

Hlutverk almennrar deildar Bjargráðasjóðs[breyta | breyta frumkóða]

Hlutverk Bjargráðasjóðs er að veita einstaklingum og félögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar beint tjón af völdum náttúruhamfara. Þetta nær til gjaldskyldra fasteigna og girðinga, tuna og rafmagnslína er tengjast landbúnaði. Einnig fást bætur fyrir tjón á heyi sem notað er við landbúnaðarframleiðslu; og tjón vegna uppskerubrests af völdum óvenjulegra kulda, þurrka, óþurrka og kals.

Tjón sem nýtur almennrar tryggingaverndar fæst ekki bætt út Bjargráðasjóði. Hið sama á við um tjón af völdum ásetnings eða gáleysis, þar sem eðlilegar varnir voru ekki við hafðar og ef staðsetning hluta telst óeðlileg með tilliti til tjónshættu. Tjórn á stærri mannvirkjum, svo sem orku- og hafnarmannvirkjum, sjóvarnargörðum, fiskeldismannvirkjum og skipasmíðastöðvum, fæst ekki bætt út Bjargráðasjóði.

Hlutverk búnaðardeildar Bjargráðasjóðs[breyta | breyta frumkóða]

Hlutverk búnaðardeildar er að bæta meiri háttar tjón hjá einstaklingum og félögum vegna sjúkdóma, óvenjulegs veðurfars og slysa þegar ásetningi eða gáleysi verður eigi um kennt og eðlilegar varnir hafa verið við hafðar.

Búnaðardeildin bætir tjón á búfé, afurðum búfjár og uppskerutjón.

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]