Bókasafn Akraness

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Akranes og Akrafjall

Bókasafn Akraness var eins og langflest bókasöfn landsins upphaflega lestrarfélag og var stofnað 6. nóvember árið 1864 á Akranesi. Bókasafnið var upprunalega til húsa í gamla Barnaskólanum til ársins 1946 en þá brann það til kaldra kola. Fyrir brunann var bókaeign safnsins um 3000 bindi. Tveimur árum síðar tók safnið aftur til starfa þá til húsa að Kirkjubraut 8. Bókasafnið fluttist svo að Heiðarbraut 40 árið 1972 en á 145 ára afmælisári safnsins eða í október 2009 opnaði Bókasafn Akraness í nýju og glæsilegu húsnæði að Dalbraut 1.

Á bókasafni Akraness er námsver sem fengið hefur nafnið Svöfusalur en það er aðstaða fyrir nemendur í námi til að lesa og læra og stunda fjarnám. Salurinn var nefndur Svöfusalur til að heiðra minningu fyrrverandi skólastjóra Barnaskóla Akraness, Svöfu Þórleifsdóttur (1886-1978). Á safninu er einnig að finna Héraðsskjalasafn Akraness og Ljósmyndasafn Akraness.

Bókasafn Akraness leggur metnað sinn í að bjóða upp á fjölbreyttan safnkost sem höfðar til bæði fullorðinna og barna. Á safninu má meðal annars finna skáldrit, fræðirit, hljóðbækur og tímarit á íslensku og ensku. Einnig eru nótur og tónlist á geisladiskum og auk þess kvikmyndir á dvd.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]